
Viðtal við Þórhildi Kristbjörnsdóttur.
Þórhildur Kristbjörnsdóttir kemur úr Mosfellsbænum, er Verzlingur sem og stjórnmálafræðingur en hún segir að af alþjóðabraut Verzlunarskólans sé algengt að leiðast inn í stjórnmálafræði.
„Síðasta árið mitt í stjórnmálafræðinni fór ég skiptinámi í Þrándheima í Noregi. Ég bjó í Noregi sem barn og tala norsku og er mjög norsk í hjarta þannig að það skipti mig miklu máli að fara þangað út. Síðan ætlaði ég að taka smá pásu en ákvað frekar skyndilega að fara til Frakklands að læra frönsku. Í Frakklandi ígrundaði ég aðeins hvað ég myndi gera næst og rataði þannig inn á Leiden. Ég valdi eins árs prógram í Master of International Relations. Síðan sérhæfði ég mig í global conflict in the modern era” segir Þórhildur.
„Okei, það á svo sannarlega vel við í dag. Þú heyrir það ábyggilega oft.”
„Jú klárlega! Mig langaði mikið í meistaranám í alþjóðasamskiptum en vildi mjög gjarnan vera sérhæfðari, helst gráðu með rosalega löngu nafni til að skera mig betur út. Minna general og meira sérhæft,” segir Þórhildur sposk.
„Ég leitaði víða í Evrópu og rambaði inn á þetta, það er þetta einstaka sjónarhorn sem heillaði mig og ég er mjög glöð að hafa farið í nám þarna.”
„Geturðu sagt mér aðeins frá Leiden? Varstu þarna í eitt ár og fær skólinn þín meðmæli?”
Leiden er háskólabær og ótrúlega stúdentavænn staður. Þú þarft ekkert meira sem Íslendingur, þá er svo þægilegt að vera. Það er svo frábært að vera ekki alveg inni í Amsterdam en það er samt stutt til allra helstu borga, Amsterdam, Rotterdam, Haag, jafnvel ef þú vilt kíkja til Brussel þá geturðu skroppið þangað. Alveg sniðið að stúdentum og Holland er alþjóðavænt land yfir höfuð. Það er reyndar á undanhaldi núna og ríkið er að loka á alþjóðanemendur í ríkara mæli.
En skólinn er mjög gamall og virtur, Leiden er elsti skólinn í Hollandi og verður 450 ára núna árið 2025. Kennararnir eru margir hverjir þekktir og mjög reyndir. Það eru mjög merkilegir hlutir sem hafa gerst á þessum stað og það var alveg magnað að fá að ganga þarna um.
Þegar ég útskrifaðist fékk ég að rita nafnið mitt á gamlan vegg í „svitaherberginu” svokallaða sem er aldagömul hefð. Í gamla daga voru nemendur látnir bíða eftir niðurstöðum í þessu herbergi og svitnuðu þá eflaust mikið, en þaðan kemur nafnið. Svo þegar þeim var tilkynnt að þeir hefðu náð fengu þeir að skrifa nafnið sitt á veggina í herberginu. Það er til marks um að ég hafi verið þarna ásamt öðrum. Stemningin er önnur en í HÍ, það má alveg segja það” segir Þórhildur.
„Hverjir eru helstu kostirnir við að læra í Leiden?”
„Mestu kostirnir eru klárlega magnað námsframboð. Maður kynnist svo mikið af fólki sem er að læra fjölbreytta hluti og koma alls staðar að úr heiminum sem er klárlega mjög aðlaðandi. Það er praktískt að búa þarna sem stúdent. Síðan kemur alveg á óvart hvað það er ódýrt að læra í Hollandi. Skólagjöldin voru að mínu mati mjög lág en það er svona staðlað verð fyrir alla opinbera háskóla í Hollandi. Ég borgaði u.þ.b. 380.000 kr. á ári í skólagjöld fyrir alveg „top-notch“ nám. Það er frekar lágt í samanburði við mörg önnur lönd í Evrópu.”
„Núna ertu í starfsnámi, byrjaðir þú í því beint í framhaldinu af mastersnáminu?”
„Já. Þetta passaði svo vel. Ég kláraði ritgerðina í byrjun janúar og fór í starfsnám í febrúar,” segir Þórhildur.
„Og hvað ertu að gera í starfsnáminu?”
„Ég er sem sagt í starfsnámi hjá sendinefnd ESB á Íslandi. Þetta er góð blanda af ýmsu en ég er í stjórnmála- og kynningarnefnd. Þar sé ég um samfélagsmiðla, heimasíðuna og skipulegg frekar marga viðburði. Síðan skrifa ég skýrslur og greiningar á stjórnmálaumhverfinu á Íslandi, þá sérstaklega utanríkispólitík sem er mitt helsta áhugasvið. Sem sagt, mikið að skipuleggja og plana. Það er erfitt að útskýra þetta í stuttu máli og þegar ég er spurð af öðrum hvað ég geri á daginn verð ég að svara bara sitt lítið af hvoru.”
„Hvað finnst þér þú helst hafa grætt á þessu námi?”
Þórhildur segir að í skólanum í Leiden sé mikil áhersla lögð á rannsóknaraðferðir og henni hafi fundist það kostur þar sem hún lærði ekki nóg af því í grunnnáminu að hennar mati. „Það var frábært að fá það í mastersnáminu. Ég byggði líka upp frábært tengslanet bæði hvað varðar kennara og samnemendur. Svo var þetta nám bara til eins árs, tveggja anna nám sem var mjög intense. Not for the weak!”