
Anna Þórhildur Gunnarsdóttir skrifar.
Holland er magnað land. Ég bjó í þrjú ár í borginni Maastricht, sem er alveg syðst í Hollandi, og lauk þaðan meistaraprófi í píanóeinleik. Áður en ég hélt út til Maastricht í nám var mér sagt að lærdómurinn yrði mikill – en ekki á þann hátt sem ég byggist við. Lærdómurinn sem á sér stað í skólanum væri bara brot af þeirri þekkingu sem maður öðlast við nám erlendis. Restin fælist í hinu hversdagslega, t.d. hvaða mjólk sé best að kaupa eða hvort maður geti greitt með korti (ég komst yfirleitt að þessu eftir á með fullt fangið af mat og ekkert reiðufé á mér). Það er nefnilega þannig að þó að maður fari ekki langt út fyrir landsteinana þá lærir maður ótrúlega margt á því að komast í kynni við aðra menningu (t.d. setja Hollendingar súkkulaðispænir á ristað brauð, þetta fannst mér virkilega framandi).
Nám erlendis styrkir mann gríðarlega, og alls ekki bara
á bókina, heldur þjálfar það þolinmæðina, útsjónarsemi og sjálf- stæðið, t.d. þegar maður pantar tíma hjá lækni og áttar sig á heil- brigðiskerfinu, rökræðir við háskólaskrifstofuna eða leigusalann. Að búa erlendis getur reynst þrautinni þyngri. Það er enginn að fara að redda hlutunum fyrir mann, heldur þarf maður sjálfur að semja við leigusalann sem loksins kemur og málar yfir risastóra græna myglublettinn sem hafði myndast í loftinu. Hins vegar er ég þakklát fyrir að búa að þessari reynslu. Námið úti kenndi mér seiglu og þolinmæði, að taka upp tólið og díla við hlutina.
Ég mæli með því við hvern sem er að láta vaða og fara út. Það er virkilega frelsandi að mæta í nýja borg, nýtt land þar sem þú kynnist svo ótrúlega mörgum og skemmtilegum karakterum, sum vinabönd haldast sterk þrátt fyrir margra ára aðskilnað og eitt stykki Atlantshaf á milli ykkar. Það að fara út í nám er ekki bara verkefnaskilin eða lokaritgerðin. Heldur er það einfaldlega að finna réttu mjólkina í búðinni og allt þar á milli.
Lærdómurinn felst líka í að kynnast því hvað þú vilt ekki gera. Námið úti getur opnað ótal dyr, en að sama skapi verður maður fyrir vonbrigðum með annað. Snúður úr Múmínálfunum sagði víst að maður þurfi að leggja í langferð, til að sjá hve yndislegt það væri að vera heima. Virkilega orð að sönnu. Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin og það er ómetanlegur lærdómur að komast að því.
Úti í Hollandi átti ég hollenskan meðleigjanda. Meðleigjandi minn dvaldi oft heima hjá foreldrum sínum en kom við og við í bæinn. Við rákumst ekki oft á hann en það var alltaf minnisstætt þegar hann kom. Hann benti okkur Íslendingunum í húsinu t.d. gjarnan
á að við værum útskeif eða hávaxin. Hann var í miðju doktorsnámi
í læknisfræði og mikill rannsakandi og áhugamaður um sykursýki. Honum var því mjög umhugað um almenna heilsu og hollt mataræði. Salt og sykur var í lágmarki. Það var því forvitnilegt að fylgjast með honum í eldhúsinu. En það varð til þess að við Íslendingarnir fórum að velta fyrir okkur… er geimvera á meðal vor? Að því sögðu þá er hér uppskriftin að einum minnisstæðum kvöldverði meðleigjanda míns í Hollandi:
Heilsumatur að hætti geimvera
Hráefni:
- 1 poki frosið grænmeti
- 1 pakki shitake sveppir (því dýrari, því betri)
- Ostsneiðar
Aðferð:
Setjið frosna grænmetið í pönnu ásamt smá vatni. Setjið lok á og látið malla.
Skerið sveppi niður í bita og steikið í annarri pönnu ásamt smá vatni.
Leggið til hliðar.
Þegar frosna grænmetið er þiðið í pönnunni, setjið ostsneiðar yfir og rétt látið bráðna.
Berið fram með spínati.