Skip to main content

„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir ungt fólk að elta draumana sína“


Viðtal við Loga Einarsson Menningar­ nýsköpunar og háskólaráðherra, 20. mars 2025.


Í lok mars 2025 hittu Katla Ársælsdóttir, ritstjóri Sæmundar, og Þórdís Dröfn Andrésdóttir, forseti SÍNE, Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólamálaráðherra, í ráðuneyti hans og spurðu hann spjörunum úr er varðar stöðu íslenskra námsmanna um allan heim.

„Það vill svo til að þú ert fyrrum íslenskur náms­ maður erlendis, segðu mér aðeins frá þinni reynslu í Osló og hvað hefðir þú viljað hafa betra á þínum námsárum erlendis? Hvaða vandamál glímdu íslenskir námsmenn erlendis við á þeim tíma?” spyr Katla en Logi var í arkitektúrnámi við Arkitekthøgskolen og bjó í Noregi um nokkurra ára skeið.

„Til að byrja með var náttúrulega miklu flóknara að fara í nám erlendis, það er að segja að velja sér skóla. Maður var svolítið háður því að fá upplýsingar frá vinum og vandamönnum og öðrum sem höfðu verið. Þetta þurfti auðvitað að gerast í gegnum bréfaskrif og svör bárust seint og illa eða ekkert jafnvel. Ég sótti bara um á Norðurlöndunum af því að það voru þær upplýsingar sem ég fékk og endaði svo í Noregi” segir Logi og bætir svo við:

„Það voru auðvitað sömu áskoranir og eru fyrir námsmenn í dag. Það er dýrt að koma sér á milli og það er dýrt að koma sér upp búslóð, þó að hún sé lítil. Það voru líka praktískar hindranir á þeim tíma. Það var flóknara að færa pening á milli landa og engir farsímar. Veruleikinn var líka allt annar. Það voru ekki sömu kröfur um dagleg samskipti við sína nánustu.

Ég man að ég var búinn að vera úti í tvo og hálfan mánuð þegar ég hringi í mömmu úr tíkallasíma og bið hana um að lána mér pening, af því að námslánin voru náttúrulega ekki komin. Þau bárust seint og illa á þessum tíma. Þegar við vorum búin að græja það þá heyri ég að hún kallar í pabba sem sat í stofunni og spyr hvort hann vilji ekki heyra í syninum, hann sé í símanum. Þá heyri ég hann segja í bakgrunninum: „Kemur hann ekki um jólin?” Það var svo sem ekkert, þetta var allt annar veruleiki.”

Logi bætir síðan við: „Ég var náttúrulega feginn að fá að hleypa heimdraganum
og það var mjög spennandi að komast út. Á þeim tíma mátti til dæmis ekki kaupa bjór á Íslandi og það var auðvitað, fyrir rúmlega tvítugan mann, mjög spennandi veruleiki. Það voru litlir hlutir sem glöddu. Það var ekki hægt að læra mitt nám á Íslandi á þeim tíma, þannig ég var afskaplega ánægður að hin Norðurlöndin vildu taka við okkur Íslendingunum. Í Osló á þessum tíma voru margir nemendur í arkitektúr, dýralækningum, veðurfræði og öðrum fögum sem ekki var hægt að læra hér. Það er viðvarandi verkefni, að sjá til þess að íslenskir nemendur hafi greitt aðgengi í erlenda háskóla.”

„Nú hefur þú nýlega tekið við ráðuneytinu, er eitthvað sem þú sást snemma að mætti betur fara?”

„Við sáum það um leið og við komum að skýrsla sem var gerð leiddi í ljós að lögin um nýja Menntasjóðinn sem sett voru 2019 stóðu ekki undir þeim væntingum að sjóðurinn yrði félagslegur jöfnunarsjóður. Þeim sem tóku lán fór fækkandi og vísbendingar voru um að þeir sem væru með lítið bakland tækju síður lán en aðrir. Það er alveg í andstöðu við markmið sjóðsins. Við sáum auðvitað líka strax að fjármagn til háskóla er hreinlega minna hér að meðaltali, bæði miðað við OECD og Norðurlöndin. Ef við berum saman þessi þrjú skólastig sem við erum með, það er að segja, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla þá teiknast upp mjög áhugaverð mynd sem sýnir að í samanburði við önnur lönd er fjármagn til háskólanna of lítið. Þriðji punkturinn sem sló okkur illa er sá að það má víða bæta húsnæðiskost háskóla til að nemendur geti sinnt námi sínu betur” segir Logi.

Hugvitið leiðin að verðmætasköpun

Aðspurður hvar honum finnst háskólamálin hafa staðið sig vel þegar hann tekur við ráðuneytinu segir Logi að almennur skilningur á gildi háskólanáms á Íslandi skipti sköpum. „Við Íslendingar erum í grunninn nokkuð vel menntað fólk og það eru margir sem stunda nám í háskólum. Ég held að meðvitundin um að hugvitið sé í rauninni eina leið okkar til að auka enn á verðmætasköpunina sem að hefur byggt upp landið okkar, hún sé mjög rík.” Það er þó ýmislegt sem Logi myndi vilja gera úrbætur á. „Það er umgjörðin sem við þurfum að hlúa betur að og laga. Þetta er auðvitað langtímaverkefni. Það tekur tíma að byggja hús, það þarf að gera við slíkar aðstæður að efnahagurinn sé í lagi, það tekur enn lengri tíma að klifra upp í þessi meðaltöl, að minnsta kosti Norðurlandanna og það er þolinmæðisverk. En það þarf sífellt að minna á mikilvægi þess. Síðan varðandi umgjörð nemendanna, aðbúnað nemenda, þá tel ég að þar séu tækifæri þar sem að hægt væri að ráðast í skjótari breytingar” svarar Logi.

„Segjum sem svo að þú vaknir á morgun og sért ekki ráðherra, þú ert á krossgötum lífsins að velja þér háskólanám ­ hvað myndir þú vilja læra og hvar?”

„Við vöknum á morgnana alltaf á einhverjum krossgötum. Við erum alltaf að glíma við einhver vandamál sem að eru kannski ekki endilega stór í sögulegu samhengi en skipta okkur máli. Ætli ég yrði ekki myndlistarmaður. Ætli ég gerði ekki það sem mig langaði að gera en þorði ekki á sínum tíma. Ég veit ekki hvert ég myndi fara. Það eru margir mjög góðir skólar víða. Mér sýnist vera góð deild í Listaháskólanum. En ég reikna nú samt með því að það væri eitthvað sem ýtti mér í að fara til útlanda, bara einhver lítil, varkár ævintýraþrá” segir Logi sposkur.

„Hvar liggja áherslur þínar í háskólamálum?”

„Það þarf að tryggja námsmönnum meiri fyrirsjáanleika, meira öryggi. Það þarf að breyta Menntasjóðnum þannig að hann sé sannarlega félagslegur jöfnunarsjóður. Í öðru lagi þá þarf að tryggja að háskólar fái það fjármagn sem þeir þurfa til þess að geta orðið í rauninni nógu öflugar stofnanir til að standast alþjóðlega samkeppni. Okkur vantar mjög mikið af vel menntuðu fólki, af sérfræðingum. Ég nefni, þó að það sé ekki eingöngu, sem dæmi hinar svokölluðu STEM-greinar og heilbrigðisvísindi. Við þurfum mikið af fólki og við þurfum auðvitað þess vegna að búa það vel um fólk að það geti hugsað sér að dvelja og búa hér. Og ef það fer erlendis, sem er held ég alltaf hollt og gott fyrir alla, að þau geti hugsað sér að skila sér aftur heim og leggja íslensku samfélagi lið. Og svo eru það húsnæðismálin sem eru bara praktísk mál en við þekkjum það af vegakerfinu okkar að eftir því sem þú frestar því að sinna því og halda því við, byggja upp það sem þarf, því erfiðara er að halda sjó. Og við erum hreinlega komin þangað í húsnæðismálunum að það verður átak að koma því öllu í lag” segir Logi.

„Hvernig lítur þú á stöðu námsmanna erlendis í dag? Eru einhverjar úrbætur sem þú myndir vilja gera?”

„Nú eru að verða 40 ár síðan ég kláraði nám erlendis, sem er alveg svolítið óhugguleg staðreynd. Þannig að margt hefur breyst. Margt hefur örugglega batnað. Það er auðveldara að finna skóla, það er auðveldara að finna hentugar námsleiðir. Skólakerfið hefur breyst og er orðið skemmtilegra, það er hægt að taka allskonar vinkla og beygjur á leiðinni sem að ekki var hægt þegar ég var að læra. Það eru orðnar tíðari ferðir erlendis og það er ýmislegt ódýrara, en það er annar kostnaður sem leggst til. Það eru auðvitað alltaf þessi grunnatriði sem eru flókin. Fólk flyst erlendis, það er dýrt að koma sér fyrir á nýjum stað. Fólk sem á börn missir tengslanet og það er erfiðara. Þetta eru hlutir sem við getum ekki komið inn í með beinum hætti. En svo eru aðrir hlutir sem við getum skoðað. Ég veit að námsmenn hafa lagt mikla áherslu á, eins og t.d. þakið á skólagjaldaláninu sem er 7.5 milljónir núna. Í þeim tilfellum sem fólk er búið að fá lán fyrir skólagjöldum í námi hér á Íslandi, eins og til dæmis í HR, þá dregst sú upphæð frá því sem þú getur fengið erlendis. Það eru svona praktískir hlutir sem eru flóknir og þarf að leysa. Ég get ekki lofað að það verði gert einn, tveir og þrír en þetta er eitthvað sem þarf sannarlega að skoða og námsmenn hafa verið að benda á.

Síðan er alltaf flókið þegar fólk tekur námslán á Íslandi og stundar nám erlendis. Það eru einhverjar viðmiðunarupphæðir, jafnvel með uppbótum þar sem dýrast er að búa sem er lagt til grundvallar við útreikning námslána. Í fimm ára námi getur ýmislegt breyst í gjaldeyrisumhverfinu, þannig það er dálítil óvissa sem fylgir þessu. Ég held við þurfum á því að halda að fólk leiti til jafns erlendis í nám og hér innanlands. Ég held að það sé mjög dýrmæt fjárfesting fyrir íslenskt samfélag, að við fáum fjölþætta reynslu og þekkingu inn í okkar samfélag. Þess vegna held ég að það þurfi að leggjast yfir hlutina og fara í saumana á því sem gerir það flóknara fyrir námsmenn að læra erlendis.

Þórdís, forseti SÍNE bætir við: „Það sem breytti lífi námsmanna erlendis umtalsvert til hins betra, það var þegar námslánakerfinu var breytt þannig að námsmenn fengju framfærsluna sína borgaða mánaðarlega en ekki í lok hverrar annar.”

Logi svarar: „Ég held að við höfum fengið fyrir fram, en fengum í tveimur skömmtum. Og fyrir mann sem sýndi ekki mikla (fjárhagslega) ábyrgð á sínum yngri árum, þá hefði verið betra að fá mánaðarlega, eftir á að hyggja.

Við viljum auðvitað ekki að það sé fyrst og fremst í boði fyrir fólk sem að getur notið fjárhagslegrar aðstoðar að stunda nám” bætir hann við.

„Ég myndi gjarnan vilja sjá að menntasjóðurinn stæði undir þeim skyldum sínum að vera raunverulegur félagslegur jöfnunarsjóður.“

Katla spyr Loga hver framtíðarsýn hans sé í málaflokknum, sem er stór spurning en ráðherra segir að framtíðarsýnhans sé þríþætt: „Það sem snýr að námsmönnum, það sem snýr að fjármögnun háskólakerfisins og það sem snýr að húsnæðismálunum. Ég myndi gjarnan vilja sjá að menntasjóðurinn stæði undir þeim skyldum sínum að vera raunverulegur félagslegur jöfnunarsjóður. Ég myndi vilja sjá að námsmenn gætu, ef þeir kjósa, helgað sér námi, stundað það án þess að vera í allskonar aukavinnu. Nú veit ég að veruleikinn hefur breyst og það er ýmis kostnaður sem var ekki þegar ég var sjálfur í þessum sporum, kostnaður við síma og netveitur og þess háttar. Ég myndi vilja sjá það að námsmenn gætu sinnt einungis námi sínu ef þeir kysu og ég held að það sé vanmetið.

Nám hefur verið að breytast en ég held að fólk þurfi að gera sér grein fyrir því að háskólasamfélag er ekki endilega umhverfi sem að þú getur búist við að búa við alla ævi. Að þú fáir næði, kyrrð, þó það sé fullt starf að sinna náminu. Þú hafir ráðrúm til að spjalla við samnemendur jafnt og þú átt í samræðum við kennara inni í kennslustofu. Ég held að íslenskt samfélag væri töluvert ríkara ef fólk gæti helgað sig námi í þrjú til fimm ár án alls utanaðkomandi áreitis og kröfum um að það væri að vinna samhliða. Ég held það” svarar Logi.


„Það er bara viðvarandi verkefni, að sjá til þess að íslenskir nemendur hafi greitt aðgengi í erlenda háskóla.”

„Hvað myndir þú ráðleggja ungum námsmönnum í dag, hvað er mikilvægt fyrir okkur að muna á þessum árum?”

„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir ungt fólk að elta drauma sína. Gera það sem það langar til að gera frekar en að velta sér of mikið upp úr praktískum hlutum. Ég hef alveg sjálfur nagað mig oft í handabakið fyrir að þora ekki að elta mína drauma og fara frekar í nám sem ég taldi vera praktískara þó að mér hafi líkað ágætlega í því og gengið ágætlega í því. Ég held að það sé að mörgu leyti skynsamlegt að vera ekki of praktískur og leyfa sér að gera það sem maður vill. Við sjáum að fólk með sömu menntun getur starfað á ólíkustu sviðum. Þessar girðingar milli faga eru að hverfa. Ef við horfum til dæmis á stjórnmálaumhverfið, þetta hafa yfirleitt verið hagfræðingar og lögfræðingar en það er að riðlast. Það hefur sýnt sig að það er gott að fá fólk með alls konar bakgrunn þangað inn. Ég held að fólk eigi ekki að vera hrætt við að fara bara í það nám sem að það heldur að það þrífist í og langar til að fara í. Það fer þá bara að gera eitthvað annað ef það kemur síðan í ljós að það vill gera eitthvað annað” segir Logi.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega

Katla spyr ráðherra út í Norrænt samstarf í menntamálum, hvernig hann telur það ganga og hvort það sé eitthvað sem betur mætti fara. „Alveg örugglega” svarar Logi. Það er sífelld vinna að sjá til þess og það er auðvitað ekki síst á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að norrænt samstarf sé gott og það sé alltaf, á öllum tímum, mögulegt fyrir Íslendinga að stunda nám á Norðurlöndunum. Það verður alltaf eitthvað sem ekki er hægt að læra hér á Íslandi. Síðan eru praktískir hlutir sem ég velti fyrir mér, hvort að íslensk stjórnvöld þurfi að skoða svo sem að sannreyna þær breytingar sem urðu á framhaldsskólakerfinu, að hann hafi verið styttur. Við viljum ekki vera í þeirri stöðu að við séum jafnvel að útskrifa stúdenta sem uppfylli ekki þær tungumálakröfur sem gerðar eru á Norðurlöndunum. Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að laga. Fimmtán ára gamall unglingur á ekki að þurfa að velta því fyrir sér hvort að það nám sem boðið er upp á í framhaldsskólum nægi til þess að fleyta þeim áfram í næsta skrefi í lífinu. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega.”

Þórdís bætir við og segir að við séum nú þegar farin að sjá áhrifin á nemendur sem vilja sækja um nám í Danmörku: „Við sjáum að eftir að framhaldsskólinn var styttur, hafa danskir háskólar markvisst verið að fækka íslenskum nemendum. Öll Norðurlöndin teljast gjaldgeng inn í nám á dönsku, nema Íslendingar.”

Logi segist hafa heyrt af því sama og telur stöðuna mjög alvarlega: „Það er í mörgum tilfellum, í stærri skólunum, hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og víðar, hægt að bæta við sig aukaeiningum, það er að segja ef þú uppgötvar þetta. En svo eru það minni skólar sem hafa ekki tök á þessu og þá er verið að loka dyrunum á nemendur þeirra. Við erum alltaf háð því að eiga í góðum samskiptum við Norðurlöndin. Ég fór inn í skólann minn í Noregi árið 1986, sem er talsvert áður en við gerðum EES-samninginn. Ég komst þangað inn á kvóta. Það voru hliðarleiðir inn fyrir okkur því það var skilningur á því á Norðurlöndunum að Íslendingar þyrftu sérfræðinga á þessu sviði eins og öðrum. Núna er þetta auðvitað gert með alþjóðlegum og fjölþjóðlegum samningum og á að vera auðveldara. En þá koma aðrar hindranir eins og tungumálin. Ég óttast að þetta sé svipað með einhverja skóla í Bretlandi.”

Þórdís bætir við: „Við höfum þurft að ná til nemenda sem eru að sækja um á Norður­ löndunum og þá sérstaklega í Danmörku, af því að áður en þú sendir inn umsóknina þína þá þarftu að vera búin að sækja um að fara í tungumálapróf. Svo fá þau gjarnan þau svör að þau komist inn með því skilyrði að standast tungumálaprófið. En framboð er ekki það sama og eftirspurnin og þá er jafnvel orðið of seint að taka prófið.”

Vandamál af þessu tagi fellur ekki undir málefnasvið háskólamálaráðuneytisins en Logi segir að þau hafi hugsað sér að eiga í samtali við menntamálaráðuneytið. „Þessu þarf að kippa í liðinn,” segir hann.

Í framhaldi spyr Þórdís hvort það hafi komið upp sú hugmynd að eiga samtal við Danmörku um þetta og því svarar Logi: „Það er alveg sjálfsagt og við munum alveg örugglega gera það. Það getur vel verið að slíkt samtal hafi átt sér stað án þess að ég viti af því. Hins vegar er þetta líka á ábyrgð okkar að stytta ekki nám með þessum afleiðingum. Að það loki dyrum að næsta herbergi. Það er ótrúlega skammsýnt.”

„Menntasjóður námsmanna virðist stundum vera ein stór flækja, bútasaumsteppi eða völundarhús – Hvernig er að fá þetta verkefni í fangið?”

Graf: Viska

„Það var náttúrulega merkilegt að sjá þessa skýrslu sem sýndi það að nýleg lög náðu ekki markmiðum sínum. Námsmönnum sem taka lán fer fækkandi og margt sem að bendir til þess að fólk með veikari félagslegan bakgrunn taki enn síður lán. Það var margt bæði skynsamlegt og skemmtilegt í hugmyndinni sem lá þar að baki, að breyta þessu frá því að vera bara lán í að hafa þetta bæði styrki og lán. Það er auðvitað að norrænni fyrirmynd. En kannski hefur fólk látið glepjast af þeirri trú að við værum komin í eitthvað langtíma lágvaxtaskeið sem myndi tryggja að hér væru vextir lágir næstu áratugina. Þannig hefur það því miður ekki verið á Íslandi og það sýndi sig að það var ekki þannig sem það var komið til að vera. Þannig að þessir rosalega háu vextir sem hafa verið hérna síðustu tvö ár hafa gert það að verkum að vextir af lánahlutanum hafa étið upp og rúmlega það, ávinninginn af styrkjahlutanum. Mig minnir að ég hafi séð á Facebook í gær, spjald frá Visku sem sýnir þetta svart á hvítu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að bregðast við og við ákváðum að ráðast í þetta strax. Þetta var fyrsta málið sem við fórum að vinna í og byrjuðum á því hálfum mánuði eftir að við komum inn í ráðuneytið. Þess vegna lögðum við fram nýtt frumvarp núna í vor sem við vonum að verði tekið fyrir í næstu viku.

Frumvarpið hefur verið tekið fyrir á þinginu og eru 1. umræður búnar þegar þessi grein er skrifuð. Það á eftir að koma í ljós hvort frumvarpið verður samþykkt og þá hvort það haldist í núverandi mynd.

Þar erum við meðal annars að gera nokkrar breytingar. Ein er að í stað þess að þú fáir 30% styrkinn alveg í námslok, þá færðu 20% eftir önnina og 10% í lokin. Þetta er auðvitað gert til þess að refsa fólki ekki ef að einhvern tímann á námsleiðinni kemur eitthvað fyrir sem gerir það að verkum að þú getur ekki klárað eina önn. Við seinkum einnig afborgunum, þær hefjast seinna en áður var. Við gerum breytingar sem gera það að verkum að þú þurfir ekki að greiða af tveimur lánum í einu, þú greiðir fyrst af nýja láninu og svo af því gamla. Við ætlum að bæta upplýsingaöflun sjóðsins til muna. Og svo breytum við fyrirkomulaginu á útreikningum vaxta, skoðum lengra tímabil til að fletja út þessa háu kúrvu sem hefur verið. Þetta var fyrsta skrefið sem við töldum nauðsynlegt þar sem að við sáum að fólk var í verulegum vanda og fyrirsjáanlegt að fleiri myndu lenda í vanda. En við ætlum líka og erum búin að boða það, að fara í heildarendurskoðun á námslánakerfinu, aftur, þó að það sé ekki nema nokkur ár síðan það var samþykkt síðast. Þar verður allt undir. Þar verðum við að skoða hvort að þessi leið sem farin var heppileg og hvort að það eigi að skoða annað og aðeins tryggara og fyrirsjáanlegra kerfi. Aðalatriðið er að sjóðurinn standi undir þeim kröfum sem gerðar eru á hann í lögum.”

„Forseti SÍNE mætti í viðtal hjá RÚV í síðustu kosningum og minnti meðal annars á að skýr utanríkisstefna sé mikilvæg fyrir hagsmuni íslenskra námsmanna erlendis. Hvernig lítur þú á samspil þátta eins og alþjóðasamskipta, stöðugleika í heiminum þegar kemur að tæki­ færum og stöðu námsmanna erlendis?”

„Gott samstarf okkar við umheiminn skiptir okkur öllu máli og það hefur sýnt sig að í sem opnustu samskiptum og nánustu samskiptum við nágrannalönd okkar hefur okkur alltaf vegnað best” svarar Logi og bætir síðan við: „Þetta á auðvitað ekki bara við um námsmenn, þetta á líka við um viðskipti, almennan efnahag og velsæld þjóðarinnar. Nærtækast er að þétta enn betur samstarfið við Norðurlöndin. Norðurlöndin er miklu öflugri eining en flestir gera sér grein fyrir, þetta er ellefta eða tólfta stærsta hagkerfi í heiminum. Saman erum við ótrúlega sterk en við þurfum líka að þétta raðirnar við Evrópu. Síðan þurfum við auðvitað að eiga í margs konar tvíhliða samstarfi og samningum við aðrar þjóðir eins og Bandaríkin og Asíuþjóðir, meðal annars til þess að greiða leiðir og opna möguleikann fyrir námsmenn sérfræðinga til að koma hingað og auðgað háskólalífið og hagkerfið.

Við höfum alist upp við að alþjóðamálin séu svolítið eins og seigfljótandi tjörn sem hefur einhvern fyrirsjáanleika. Þó ástandið hafi ekki alltaf verið skemmtilegt, þá höfum við getað farið að sofa á kvöldin og vaknað upp við nokkurn veginn sama veruleika næsta morgunn. Núna um áramótin, vegna kosninganna Vestanhafs, þá er staðan breytt. Maður þorir varla að opna fjölmiðla á morgnana af því að það eru svo kvikar og ófyrirsjáanlegar breytingar sem eru að verða í heiminum. Þetta gerir það að verkum að við þurfum að þétta enn betur raðirnar við okkar helstu nágrannaþjóðir, Norðurlöndin og Evrópu.

Síðan sjáum við það að í fyrsta skiptið síðan í seinni heimsstyrjöld erum við að upplifa hefðbundið og gamaldags landvinningastríð stórs ríkis í garð nágrannaríkis sem er svo aftur rétt við bæjardyrnar hjá okkar nágrönnum. Allt leiðir þetta til þess að við þurfum að þétta raðirnar og það hefur gerst. Utanríkisráðherra fyrrverandi og núverandi hafa sinnt þessu mjög vel. Í dag eigum við til dæmis mikið víðtækara samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sem einingu. Ég held að námsmenn eigi allt undir að alþjóðamálin séu í góðum farvegi” segir Logi.

„Hverjar telur þú vera helstu hindranirnar sem námsmenn erlendis standa frammi fyrir og hvernig sérðu fyrir þér að ryðja þeim úr vegi?”

„Hindranir eru auðvitað af praktískum toga sem hvorki guð eða stjórnvöld geta nokkurn tímann leyst. Fólk verður að leggja á sig ýmislegt þegar það flytur langt í burtu. En umgjörðin sem að okkur snýr er að skoða hvort þessi þök á skólagjöld séu of þröng og of ósanngjörn. Hvort að framfærsluútreikningarnir séu réttir og ég bind miklar vonir til nýrrar stjórnar Menntasjóðsins, að hún taki þessi mál föstum tökum og við viljum sannarlega létta undir og gera vel” segir Logi en við fylgjumst spennt með gangi mála hjá ráðuneytinu.