
Katla Ársælsdóttir skrifar.
Eins og gefur að skilja eru mikil viðbrigði að flytja erlendis, sér í lagi ef þú ert alveg einn á báti.
Fyrir mitt leyti þá flutti ég til Dublin á Írlandi haustið 2022 án þess að þekkja nokkurn mann þar í borg, hafði aldrei komið til Írlands en keypti flugmiða aðra leið og vonaði það besta. Fermingar, skírnir, sunnudagskafif og fleiri fjölskyldutengdir viðburðir máðst út af dagskránni, sem í allri hreinskilni sagt, fylgdi stundum ákveðin léttir en af sama skapi fann ég gjarnan fyrir tómleikatilfinningu. Þetta einfaldaði lífið að einhverju leyti, ég fékk mun meiri tíma til að sinna náminu mínu en ég hafði gert í grunnnáminu heima, þegar ég sinnti vinnu og félagsstörfum samhliða því og að sjálfsögðu að kynnast nýrri borg. En það fylgdi því ákveðið frelsi að fara út úr húsi, vitandi að líkurnar á að ég mætti einhverjum sem ég þekkti voru litlar sem engar. Það gat þó verið erfitt að finna löngunina til þess að gera það ein á báti. Ég átti töluvert færri vini en heima, væntanlega, en það gat verið erfitt að hafa ekki stuðningsnet vinahópsins þegar félagsbatteríið var full hlaðið.
Ef fleiri eru í þessum pakka, sem ég er viss um að fleiri eru, þá bjó ég til stuttan lista yfir hluti sem gaman er að gera einn.
Farðu á safn
Þetta er klassískt, en ég ætlaði aldrei að lofa að listinn væri mjög frumlegur. Það er gott að vera menningarlegur af og til. Eða það held ég. Það góða við söfn í stórborgum er að mörg þeirra eru ókeypis sem hentar lífsstíl námsmanna einkar vel. Þar er hægt að eyða eins miklum eða litlum tíma og manni girnist hvert sinn og þeim fylgja iðulega góð kaffihús og gjafabúðir.
Farðu í strætóferð sem er ekki túristastrætó
Ég fer seint að tala illa um rauðu túristastrætóana, en ég hef lengi státað mig á því að vera sjálfskipuð drottning slíkra strætóa en þeir eru mjög heppilegir þegar um stutt stopp er að ræða og þú vilt sjá eins mikið af helstu kennileitum staðarins á skömmum tíma. Samgöngur í flestum öðrum borgum eru betri og iðulega ódýrari en þær sem fólk fær að venjast hér heima og því finnst mér mikil- vægt að grípa gæsina. En þar sem þú býrð nú á staðnum er um að gera að nýta sér almenningssamgöngur og kynnast þannig hverfum og stöðum sem eru ekki morandi í ferðamönnum.
Farðu út fyrir bæjarmörkin
Helst í lest. Ég held að lestarhluti athafnarinnar segi sig sjálfur. Þegar ég lít tilbaka á námsdvöl mína hefði ég viljað að ég hefði verið duglegri í að fara í lestarferðir og kynnst bæjunum í kringum Dublin betur en ég gerði. Það leynast gersemar út um allt.
Leyfa sér að týnast
Ég held það sé ekki til betri leið til að kynnast borg. Þessi liður helst vel í hendur við strætóleiðangur og týnst í hverfi sem þú ferð ekki oft í. Settu góða hljóðbók eða tónlist í eyrun og ráfaðu um, finndu bestu bókabúðirnar, kaffihúsin og pöbbana í hverju hverfi fyrir sig.
Lesa bók á barnum
Þetta er fyrir lestrarhestana. Og það má vera tilgerðarlegur í út- löndum. Því tilgerðarlegri sem bókin er því betra. Helst The Shining á rokkbar (ég skrifa af eigin reynslu). Þetta er eitthvað til að prófa til þess að upplifa frelsið að þekkja engan, þar sem líkurnar á að þú hittir einhvern sem þú þekkir eru töluvert minni en ef þú værir að stunda sömu iðju í miðbæ Reykjavikur.
Farðu í messu
Þetta kann að hljóma furðulega, sérstaklega í ljósi þess að ég er ekki einu sinni meðlimur í Þjóðkirkjunni. Ef til vill er þetta dægrastytting sem hentar menningu og löndum misvel en sem einhver sem bjó á Írlandi þá þótti mér gaman að prófa það. Það fylgdi þessu ákveðin núvitund.
Ekki svo að segja að þetta sé eitthvað sem ég hafi stundað og mætt hvern sunnudag, en það er eitthvað við það samt… dæmið að minnsta kosti ekki alveg strax!
Trítaðu þig
Þetta er það mikilvægasta á listanum og getur verið erfitt á sama tíma og það er skemmtilegt
Fáðu þér aukasíróp ofan í kaffið þitt, keyptu varalitinn sem þér finnst flottur og kíktu á útsölurnar. Prófaðu nýjan og spennandi veitingastað. Bara hvað sem er. Það er mikilvægt að leyfa sér einstaka sinnum þó svo að þú sért ekki með mikið á milli handanna.
Öllu jafna er mjög eðlilegt að vera einmana á nýjum stað án stuðningsnetsins. Minn helsti lærdómur hvað þetta varðar var að það er kannski er ekki svo slæmt að láta sér leiðast einstaka sinnum, sér í lagi á framandi slóðum.