
Ásgerður Magnúsdóttir skrifar.
Leið mín í nám erlendis var mjög hefðbundin. Ég lauk BA gráðu í sagnfræði við Háskóla Íslands vorið 2022 og ákvað síðan að vinna í eitt ár á milli grunnnáms og meistaranáms og byrjaði því að sækja um nám veturinn 2022-2023. Ég var svo lánsöm að kennararnir mínir í BA náminu hvöttu mig eindregið til að fara út, skrifuðu meðmælabréf, veittu góð ráð og svöruðu endalausum spurningum. Mér fannst á sínum tíma frekar undarlegt að þau væru í rauninni að segja mér að þau vildu ekki kenna mér lengur. Ekkert þeirra hvatti mig til að halda áfram í námi við HÍ. En í dag skil ég þau betur. Flestir hafa gott af því að víkka sjóndeildarhringinn, prófa nýtt umhverfi og upplifa sína fræðigrein á alþjóð- legum vettvangi.
Ég sótti um í fjórum skólum, en var í raun bara að vonast eftir að komast inn í einn og það gekk! Á miðri kvöldvakt í vinnunni fékk ég tölvupóst um að ég hefði komist inn í draumanámið, MSc í Economic History við London School of Economics and Political Science. Ég varð svo skrýtin á svipin að samstarfskona mín hélt að það hefði eitthvað hræðilegt komið fyrir. Þannig hún fékk að heyra fréttirnar á undan öllum öðrum.
Stóri dagurinn rann upp. Ég flutti til London, byrjaði í náminu af fullum krafti, hellti mér í félagslífið og allt hitt sem var í gangi. Fyrstu vikurnar voru æðislegar, að kynnast nýrri borg, nýju fólki og hella mér í fræðigrein sem ég hafði endalausan áhuga á.
En eftir þessar fyrstu vikur kom raunveruleikinn og hann var bara frekar leiðinlegur.
Eftir að hafa eytt meira en ári að spá og spekúlera hvert ég ætti að fara, allt stressið og eftirvæntingin í umsóknarferlinu og gleðina þegar ég komst inn í draumanámið, þá var þetta bara engan veginn það sem ég hafði ímyndað mér. Deildin mín í skólanum var að ganga í gegnum miklar breytingar og það bitnaði því miður mikið á nemendaupplifuninni og hvernig námið var sett upp. Ég og flestir samnemendur mínir vorum sammála að þetta var ekki það sem við sóttum um eða „gæðin” sem við vorum að borga háar upphæðir í skólagjöldum fyrir. Ég var í afneitun lengst af hvað þetta var leiðinlegt, trúði heilshugar að vorönnin yrði betri en haustönnin. (Hún var það ekki). Fólkið í kringum mig var löngu byrjað að sjá að ég var ekki að njóta. Mamma var til dæmis dugleg að spyrja: En er þetta nokkuð svo slæmt?”
Og þetta var alveg frekar slæmt. Ég myndi samt ekki breyta neinu.
Þótt að þetta hafi ekki verið upplifunin sem ég bjóst við þá var þetta eitt lærdómsríkasta ár lífs míns. Þrátt fyrir öll leiðindin, þónokkur tár og að hámarka lántöku mína frá Menntasjóði námsmanna þá var þetta vel þess virði. Ég eignaðist góða vini í náminu sem fannst staðan í deildinni alveg jafn leiðinleg og mér og við hjálpuðumst að í gegnum það versta, lærðum saman og vældum yfir mörgum bjórum. Ég fékk að upplifa að búa í stórborg eins og London, eitthvað sem fékk mig til að kunna að meta litla Ísland þeim mun meira. Ég lærði svo mikið nýtt í hverri viku í náminu og það breytti hvernig ég hugsa um heiminn til frambúðar. Að þrjóskast í gegnum námið þýddi líka að það var algjörlega stórkostleg tilfinning að klára.
Og stærsta ástæðan er að ef ég hefði valið annað nám væri ég ekki þar sem ég er í dag. Meistaranám í LSE er nefnilega bara 12 mánuðir (blessun og bölvun). Það þýðir að um vorið 2024 var ég aðeins byrjuð að líta í kringum mig og skoða hvað ég ætlaði eiginlega að gera næst. Þá rakst ég á auglýsingu um starfsnám í utanríkisþjónustunni. Ég prófaði að sækja um, haldandi að það væri nú ekki mikill séns á að þetta myndi ganga upp. En svo í upphafi vorprófanna kom símtal og ég var allt í einu að fara að flytja til Malaví í heilt ár um haustið. Ef ég hefði ekki valið LSE þá hefði ég líklegast farið í tveggja ára meistaranám, væri hugsanlega að leggja lokahönd á meistararitgerðina einmitt núna og hefði ekki fengið tækifærið til að upplifa nýtt ævintýri. Svo nýti ég líka fullt af því sem ég lærði í náminu á hverjum degi í vinnunni.
Fólk sem flytur erlendis í nám talar gjarnan bara um hvað það var frábært og algjör draumur og oftast er það þannig. Það getur hins vegar verið alveg ótrúlega leiðinlegt. Og það er líka alveg í lagi.