Skip to main content

Ávarp lánasjóðs­fulltrúa SÍNE

Kæru stúdentar og aðrir lesendur,

Þegar Lánasjóður íslenskra námsmanna var stofnaður árið 1961 sat afi minn í stjórn sjóðsins fyrir hönd námsmanna erlendis. Fyrir hönd stjórnar vann hann meðal annars mat á framfærslukostnaði námsmanna og drög að fyrstu úthlutunarreglum sjóðsins. Rúmum sextíu árum síðar sit ég í sömu stjórn, fyrir sömu samtök, og held áfram þeirri baráttu sem þá hófst: Fyrir aðgengi að menntun, réttlæti og raunverulegum stuðningi við stúdenta. Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri vegferð, á nýjum tímum, með nýjum áskorunum – en sömu hugsjón.

Málefni stúdenta eru ekki einkamál þeirra sem eru í námi hverju sinni. Hlutverk námslánasjóðs er að tryggja að aðstæður fólks komi ekki í veg fyrir að það geti sótt sér menntun. Aðgengi að menntun er grundvöllur félagslegs hreyfanleika, þekkingar- sköpunar og framþróunar. Það er verkefni sem þjónar okkur öllum, ekki aðeins lánþegum dagsins í dag, heldur einnig þeim sem þegar hafa lokið námi, þeim sem stefna á nám í framtíðinni eða jafnvel þeim sem aldrei þurftu á lánum að halda.

Stúdentahreyfingin hefur verið öflug og sameinuð í baráttu fyrir bættum námslánasjóði undanfarin ár og afrakstur þeirrar vinnu endurspeglast skýrt í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi. Þetta er því góð áminning um mikilvægi þess að halda áfram þó að á móti blási.

Fyrir tilstilli SÍNE hafa helstu hagaðilar – samtök stúdenta og stéttarfélög háskólamenntaðra – tekið höndum saman um aukna samvinnu í málaflokknum. Ég bind miklar vonir við að sameinuð rödd okkar skili okkur lánasjóði sem raunverulega tryggir jafnrétti til náms.

Hlutverk lánasjóðsfulltrúa SÍNE er að veita aðstoð í lánasjóðsmálum og vera rödd stúdenta erlendis gagnvart stjórnvöldum. Ég hvet því lántaka, jafnt sem greiðendur, til þess að senda mér línu ef þið hafið spurningar, ábendingar eða áhyggjur – sine@sine.is. Ekkert vandamál er of lítið og þau mál sem mér berast leggja óhjá- kvæmilega grundvöll að minni baráttu, bæði innan stjórnar Menntasjóðsins og gagnvart stjórnvöldum. Hlutverk mitt er að miðla fjölbreyttri reynslu og þörfum námsmanna erlendis áfram – þín rödd
er hluti af stærra samtali.

Nanna Hermannsdóttir, lánasjóðsfulltrúi SÍNE