
Senn lýkur öðru ári mínu sem forseti SÍNE. Að öllum líkindum það síðasta. Starfið er ótrúlega gefandi og ég gæti sinnt því út ævina. En samtökin græða mest á því að nýjar raddir fái að heyrast og nýjar áherslur fylgi með nýjum leiðtogum.
Starfsárið sem nú er að líða undir lok hefur verið krefjandi. Nýir vindar blása í alþjóðasamskiptum og ungt fólk sem sækir sér þekkingu og reynslu fjarri heimahögum fær að kenna á því. Vörur og viðskipti hafa verið á allra vörum þegar staðan í alþjóðamálum er rædd og alþjóðanemasamfélagið vill oft gleymast. Í síðustu kosningum spurðum við fulltrúa allra flokka sem við okkur vildu ræða hvort þau hyggðust hafa tækifæri stúdenta í huga í sinni alþjóðastefnu. Smáþjóð eins og Ísland á mikið undir hjá náms- mönnum erlendis. Hvort við snúum heim eða verðum eftir úti getur haft mikla þýðingu fyrir þekkingu og nýsköpun. Ég vona að enginn íslenskur námsmaður erlendis gleymi því, það sem við gerum er mikilvægt.
Ég er ótrúlega stolt af því starfi sem hefur átt sér stað í vetur. Við tókumst á við Alþingiskosningar með stuttum fyrirvara, áttum í afar farsælu samstarfi við Menntasjóð námsmanna, réðumst í hinar ýmsu herferðir og lengi mætti telja.
Sæmundur er málgagn námsmanna erlendis til að deila sínu lífi og upplifunum. Blaðið er ekki síður ætlað sem innblástur fyrir verðandi námsmenn erlendis. Fyrir rúmum tíu árum síðan las ég grein eftir unga konu í mannfræði við Háskólann í Árósum. Sú grein sáði fræi og fór ég í nám í málvísindum við sama skóla. Það vill líka til að ég giftist bróður hennar. Svona getur lífið verið fyndið.
Gangi ykkur öllum sem best, námsmenn og alþjóðasamfélag framtíðarinnar, sækið fram og breyta heiminum.
Þórdís Dröfn Andrésdóttir, forseti SÍNE