Viðtalið er hluti af röð viðtala sem ritstjóri SÍNE tók við frambjóðendur flokka í komandi Alþingiskosningum en spurningarnar beindust aðallega að málefnum tengdum Menntasjóði námsmanna og kjörum námsmanna erlendis. SÍNE hafði samband við alla flokka í framboði, að undanskildum Ábyrgri framtíð þar sem hann býður einungis fram í einu kjördæmi.
„Mér finnst þetta vera svo mikið til marks um það hvernig við lítum á fólk sem er að sækja sér menntun sem einhverja byrði á kerfið.“
Katla Ársælsdóttir, ritstjóri SÍNE og Þórdís Dröfn Andrésdóttir, forseti SÍNE settust niður með Katrínu Sigríði Júlíu Steingrímsdóttur, nýútskrifuðum barnasálfræðingi sem skipar 4. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík norður.
„Hvað vill þinn flokkur gera fyrir íslenska námsmenn erlendis?“
„Hvar á ég að byrja? Það er af rosalega mörgu að taka. Ég held að númer 1, 2 og 3 sé námslánakerfið. Af því að við erum að sjá að þar sem íslenskir námsmenn eru helst að sækja sér nám eru rosalega há skólagjöld sem námslánakerfið er ekki að „kovera“. Það þyrfti að hækka það. Svo varðandi framfærslulánin, við viljum sjá breytingar á því hvernig miðað er við framfærsluna. Ef við viljum fara út í tæknileg atriði þá myndum við vilja sjá að grunnframfærslan sé að taka mið af grunnviðmiði neysluviðmiðs, en að það sé uppfært miðað við búsetu og núverandi vísitölu. Við viljum að húsnæðiskostnaður sé inn í þessu líka, þannig að þetta sé „fair game“ og sé að virka sem jöfnunarsjóður, sama hvar þú ætlar að sækja nám. Við viljum ekki gefa fólki lága framfærslu og að það þurfi þá að hagræða búsetu og námi út frá því. Við viljum að við séum samfélag sem fjárfestir í menntun og sé að fjárfesta í því að fólk sé að fara út að sækja sér þá menntun sem það langar að sækja sér, óháð því hvort þessi menntun sé líka í boði á Íslandi.
Það eru sumir sem tala um að þetta sé spurning um að fara út og afla sér sérþekkingu og jú, það er gott og gilt en jafnvel þó að námið sé líka í boði á Íslandi þá ertu að læra út frá allt öðru sjónarhorni, með allt öðrum gleraugum. Þú ert að kynnast öðru samfélagi og þú ert að sækja þér tækifæri til þess að fara út. Okkur í Viðreisn finnst að fólk eigi að geta valið sér nám og þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að vera ekki með nógu góð námslán á meðan. Við myndum reyndar frekar vilja sjá að við værum með námsstyrki frekar en námslán, ef út í það er farið.“
„Hvað vill þinn flokkur gera til að hvetja íslenska námsmenn erlendis til að flytja aftur heim? Teljið þið þau kjör sem boðið er upp á fyrir nýstúdenta hér á landi viðunandi?“
„Ég held að þarna þurfum við að horfa á það að Ísland er ekki samkeppnishæft land á þessum tímapunkti. Til dæmis fyrir fólk sem fer út og sækir sér heilbrigðismenntun, það eru eftirsóttustu starfskraftar í heiminum. Við erum ekki að bjóða upp á umhverfi þar sem Ísland er fyrsta val. Ísland er alltaf bara fyrsta val hjá fólki út frá fjölskyldu og að þeim þyki vænt um heimalandið sitt. En við þurfum að hafa eitthvað meira til þess að fólk vilji koma aftur heim. Það er hægt að nefna hvernig atvinnumarkaðurinn er, hvort þetta sé spurning um að þú hafir val um einn vinnustað eða fleiri, hvernig atvinna er í boði. Svo þurfum við að skoða hvernig efnahagsumhverfið er á Íslandi. Af hverju ættir þú að vilja flytja frá Danmörku þar sem eru miklu lægri vextir og miklu lægri verðbólga og koma til Íslands þar sem þetta er í einhverjum rústum og við erum í einhverri rústabjörgun að reyna að lækka vexti og lækka verðbólgu? Ég skil alveg að fólk nenni ekki að koma aftur heim ef þetta er svona.
Svo eru margir að horfa á hversu fjölskylduvænt samfélagið sem það er í núna er, miðað við Ísland. Sumir eru það heppnir að eiga bakland sem þeir eru að sækja í hér heima en þá erum við að horfast í augu við þann raunveruleika að fæðingarstyrkjakerfi námsmanna er galið. Þetta er ótrúlega slæmt kerfi. Þetta hvetur ekki fólk til þess að koma heim, þetta hvetur ekki fólk til að halda áfram í námi ef það fer að pæla í barneignum. Ef eitthvað er þá hvetur það frekar fólk til þess að taka pásu frá námi til þess að geta unnið og eiga þá frekari rétt á fæðingarorlofi, sem er samt líka mjög illa borgað og viðmiðunarreglurnar þar eru mjög skrítnar, sérstaklega ef við erum að horfa á fólk sem er í námi. Ég sem nýstúdent væri til dæmis að fá frekar lítið fyrir minn snúð ef ég væri að huga að barneignum, af því að ég var að sækja mér menntun fyrir ári síðan. Ég skil bara ógeðslega vel af hverju fólk vill ekki koma hingað. Þetta dugar ekki fyrir neinu.
Það er svo mikill ósveigjanleiki í kerfinu okkar. Það er ekkert hægt að gera ef fólk til dæmis seinkar ritgerðarskilum eða fellur í áföngum. Af hverju erum við sem samfélag ekki að styðja fólk og hafa það þannig að fólk vilji koma aftur heim? Hafi efni á því og að við séum að senda þau skilaboð út á við: „Við sem íslenskt samfélag erum að fjárfesta í þér. Við erum að fjárfesta í þinni framtíð, þinni menntun og þínu valfrelsi“ í staðinn fyrir að senda þau skilaboð að þú sért pínu byrði. Fólk er ekki að hugsa út í það að það er „net positive“ fyrir ríkiskassann að fjárfesta í menntun. Alltaf. Sama hvaða menntun það er. Það er alltaf fjárfesting.“
„Teljið þið Menntasjóð námsmanna, í núverandi mynd sinni, þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður?“
„Nei. Alls ekki. Til dæmis er grunnframfærslan að fylgja einhverri úreltri skilgreiningu sem stemmir ekki. Eins og staðan er núna er atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta, óháð því hvort þau séu í námi hérna heima eða erlendis, miklu hærri en gengur og gerist annars staðar af því að Menntasjóður námsmanna er ekki að þjóna þessu hlutverki. Þú átt að geta verið í námi án þess að vera með sterkt bakland eða vinna ótrúlega mikið. Þú átt að geta sótt þér nám án þess að hafa áhyggjur af því að Menntasjóður námsmanna sé ekki að fara að standa við bakið á þér. Inn í þetta finnst mér líka koma að núna erum við með lánakerfi en ekki styrkjakerfi. Jú, jú við erum með 30% niðurfellingu við námslok á tilsettum tíma en veit fólk yfirhöfuð að það þarf sérstaklega að sækja um það? Þú færð það ekki automatískt, heldur þarf að senda og láta vita að þú kláraðir á réttum tíma og þarft að gera það innan ákveðins tímaramma annars færðu hana ekki. Og það eru ekkert allir sem vita það. Mér finnst galið að þetta sé ekki automatískt, fyrst við erum með þetta kerfi. Mér finnst reyndar að við ættum bara að vera með námsstyrkjakerfi. Punktur. Mér finnst þetta vera svo mikið til marks um það hvernig við lítum á fólk sem er að sækja sér menntun sem einhverja byrði á kerfið, þannig við ætlum að lána þeim einhvern pening á verstu kjörunum. Námslán voru alltaf hagstæðustu lánin en núna er þetta eins og að taka húsnæðislán af því að við erum með 9% vaxtaþak á óverðtryggðum lánum. Raunveruleikinn er að á meðan við búum við svona óstöðugan gjaldmiðil í svona óstöðugu hagkerfi með ríkisstjórn sem sýnir enga ábyrgð á því hvernig á að fara með peninga, þá verðum við alltaf hávaxtaland. Ég man alveg eftir sögum frá kynslóð foreldra minna að þau tóku kannski námslán til að til dæmis fjármagna íbúðarkaup af því þetta voru hagstæðari lán og að þetta væri alltaf besta lánið. Ég tók lán fyrir mastersnáminu mínu heima og ég er með kvíðahnút yfir greiðslubyrðinni á því, ég get ekki ímyndað mér ef ég hefði farið út í dýrara nám.“
„Hvernig endurbætur sjáið þið fyrir ykkur varðandi Menntasjóð námsmanna, ef einhverjar?“
„Við ákváðum á sínum tíma að vera frekar með námslánakerfi fremur en námsstyrkjakerfi, núna erum við að súpa seyðið af því. Við erum líka að súpa seyðið af því að Menntasjóður námsmanna er settur fram sem einhver svaka endurskoðun og endurbót á kerfinu en erum að sitja uppi með tvö kerfi. Greiðslubyrðin á námslánum yfirhöfuð, reikniprósentan fyrir hana er skrýtin, það er ekki verið að taka mið af því að aðstæður hjá fólki breytist, fæðingarorlof til dæmis. Við þurfum klárlega breytingu í þá áttina, lækka þessa greiðslubyrði, jafnvel skoða niðurfellingu í meira mæli. Af því að við viljum líka horfa til þess að breyta þessu í styrkjakerfi. Það er okkar útgangspunktur. En svo vil ég bæta við, á hvers konar kjörum eru þessi lán? Er hægt að breyta þeim eitthvað afturvirkt? Á ekki aðeins að fara að skoða það að ungar barnafjölskyldur eru að borga meira en mánaðarlaun í námslán á ári?
Ég ætlaði út til London en það var beint eftir Brexit, það var orkukrísa í Bretlandi, húsnæðisskortur og skólagjöldin í Bretlandi hækkuðu náttúrulega verulega fyrir erlenda nemendur eftir að þau gengu úr Evrópusambandinu. Ég fór að skoða skólagjaldalán til þess að fara þangað út, þá reiknaði ég það út og bara glætan. Mig langaði ótrúlega mikið en þarna sá ég að ég hafði ekki tækifæri til þess af því ég hafði ekki fjárhagslegt bakland. Ég var ekki að fara að fá lán sem væri að fara að „covera“ það sem það þyrfti að „covera“. Ég var nýkomin út úr foreldrahúsum og í eigið húsnæði, dæmið gekk bara ekki upp.“
„Hver er ykkar afstaða til hækkunar á skólagjaldalánum svo hægt sé að sækja sér fjölbreytt tækifæri til náms (fyrir t.d. læknanema í Ungverjalandi og nemendur í Bretlandi)?“
„100%. Það kemur líka inn á það að þetta er að skerða tækifæri fólks. Eins og bara í mínu tilfelli, ég hætti við að fara út í nám sem mig langaði virkilega að gera. Svo eins og vinur minn sem fór að læra læknisfræði í Ungverjalandi, hann þurfti að vinna úti í Ungverjalandi, með skólanum, var að vinna endalaust. En svo erum við líka að horfa á það að frítekjumarkið er allt of lágt. Þannig að hann þarf að vinna, af því að skólagjaldalánið er ekki nóg fyrir skólagjöldunum hans og framfærslan er ekki að duga, hann er ekki með þetta fjárhagslega bakland. Hann vinnur öll sumur eins og skepna en þarf svo að reikna út hvenær hann þarf að hætta að vinna af því að hann má ekki vinna meira. Þannig að við höfum líka talað mikið fyrir því að við þurfum að hækka þetta frítekjumark.
Draumsýnin okkar er styrkjakerfi og að afnema frítekjumarkið. Ef þig langar að vinna með skóla, af því að þú ert kannski í vinnu sem þú brennur fyrir eða til að hafa eitthvað að gera, er mér alveg sama. Gerðu það sem þú vilt og við ætlum að styrkja þig til náms á sama tíma, líka af því að þannig erum við að fjárfesta í fólkinu okkar og senda þannig skilaboð að við viljum að þú menntir þig, við viljum að þú komir heim, við viljum að þú fáir þessi tækifæri og þessa þekkingu.“
„Hreyfanleiki stúdenta milli landa og tækifæri til náms um allan heim, hafið þið þetta í huga þegar kemur að alþjóðastefnu og samstarfi?“
„Já, klárlega. við erum Evrópuflokkur. Við höfum mikið talað um, ekki bara að þjóðin eigi að kjósa um aðild að ESB, sem við teljum að væri gott skref að stíga, heldur líka að efla samstarf, rannsóknarsamstarf og þess háttar. Það er svo ótrúlega mikið í boði fyrir okkur þarna úti. Með því að efla alþjóðlegt samstarf milli háskólanna, til dæmis, þá myndum við sterkari tengsl. Að fólk hafi þessi tækifæri rímar mjög vel við okkar utanríkisstefnu. Það að hafa þessa sjóði, þessa nýsköpun, þessa þekkingu, að hafa þessi tengsl við háskóla erlendis.
Það sem gerðist til dæmis í Bretlandi er að hreyfanleiki stúdenta minnkaði. Það gerist þegar þú tekur skref til baka úr alþjóðasamstarfi. Það er í raun varnarorð fyrir okkur. Núna erum við búin að sjá þetta gerast og við þurfum að passa að þetta gerist ekki hjá okkur.“
„Hvert er ykkar viðhorf til þess að skattleggja námsstyrki?“
„Við erum mjög neikvæð gagnvart því. Af því að, eins og ég er búin að tala um, við viljum fara frekar í styrkjakerfi en lánakerfi og núna erum við með einhvers konar styrki í formi niðurfellingar, en ef við erum að fara út í styrkjakerfi þá er ótrúlega galið að ætla að fara að skattleggja það. Í fyrsta lagi er þetta peningur sem er að koma úr ríkissjóði, ætlarðu að skattleggja þann pening? Pening sem búið er að skattleggja mörgum sinnum áður. Í öðru lagi, þú ert að fjárfesta í menntun, þú ert að fjárfesta í fólki og það er smá galið að ætla að taka skatt af því. Mér finnst asnalegt að skattleggja þetta. Við sjáum þetta líka með flesta rannsóknar- eða nýsköpunarstyrki, menntastyrki þess háttar. Þeir eru skattlagðir. Nemendur sem eru að fá styrki í gegnum Nýsköpunarstyrk námsmanna, það er skattlagt. Þetta er ekki mikill peningur. Þegar ég vann verkefni yfir heilt sumar og fékk greitt í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna þá fékk ég mikið minna borgað en ég hefði fengið í einhverri annarri sumarvinnu. Og ég þurfti samt að borga skatt af því. Þannig að ef við erum með þannig kerfi, þar sem við erum að borga skatt af styrkjum sem þessum, þá er það bara ótrúlega letjandi fyrir fólk. Af hverju ætti ég að sinna þessari rannsóknarvinnu eða fara í þetta nám þegar það er í raun tekjutap? Ef við horfum á þessa sjálfstæðu styrki, eins og frá banka, styrktarsjóði eða einkaaðilum, þetta eru engar stórar fjárhæðir þegar við setjum þetta í samhengi við það sem það kostar að mennta sig.“
„Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að greiða aðgengi fjölskyldufólks að fara út, sem og að snúa heim úr námi erlendis, m.t.t. fæðingarorlofssjóðs námsmanna?“
„Í fyrsta lagi á fólk ekki að þurfa að gjalda fyrir að vera ekki á íslenskum vinnumarkaði. Við þurfum að skoða fæðingarorlofssjóð út frá því. Við þurfum að skoða fæðingarstyrk námsmanna, þetta er enginn peningur. Við þurfum að gera þetta þannig að þetta sé eitthvað sem gagnast fólki í raun og veru. Eitthvað sem er þess virði. Margar barneignir eru til dæmis planaðar, aðrar óvæntar, það á ekki að vera einhver hausverkur af því þú ákvaðst að sækja þér menntun, að það sé þá ekki í boði. Fyrir mér snýst þetta um að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænt. Þjónustan er góð en biðin er alltof löng. Húsnæðismarkaðurinn er liður í þessu. Þetta er allt liður í því að fá fólk heim.“
Segjum að lánakerfið sé orðið að styrkjakerfi, Menntasjóður námsmanna er að gefa þér styrk, þá ertu ekki að gefa skatt af því, því þetta er fjárfesting í menntun, við eigum líka að horfa á þessa sjálfstæðu styrki sem það líka. Sem fjárfestingu en ekki tekjur. Vissulega eru þetta tekjur sem þú ert með á meðan þú ert í námi, í stað þess að vera að vinna baki brotnu til þess að getað fleytt þér fram. Það eru svo miklar óþarfa kvaðir og byrðar sem er verið að leggja á fólk sem eru nú þegar að stunda krefjandi nám og búa annars staðar en á Íslandi. Það tekur ótrúlega mikla orku að læra inn á nýtt samfélag. Það er samfélaginu til heilla og þér sem einstaklings til heilla að þú menntir þig.”
„Hverjar eru ykkar skoðanir á tímatakmörkum námsárangurs, þ.e. að námsmenn þurfi að ljúka námi innan tilskilins tímaramma til að hljóta 30% niðurfellingu á láninu? Sjái námsmaður ekki fram á að ljúka námi á tilsettum tíma, og sér þar með að útilokað er að fá 30% niðurfellingu, hefur hann ekki sama hvata til að ljúka námi.“
„Ég skil að hafa einhvern fjárhagslegan hvata til að ljúka námi, en hvatinn er á vitlausum stað. Við erum ekki að setja hvatann í form styrkjakerfis almennt, við erum ekki að setja hvatann annað en þú þarft almennt að borga minna af láninu þínu. Kerfið okkar er þannig líka að grunnframfærslan er of lág, við náum ekki að „dekka“ skólagjöldin og fleira. Sem veldur því að atvinnuþátttaka okkar námsmanna er miklu hærri en annars staðar, sem eykur líkur á að þú verðir lengur í námi, sem eykur líkur á því að þú fallir í áfanga, sem eykur líkur á því að þú hættir hreinlega í námi. Hvatinn er ekki á réttum stað. Fólk á ekki að þurfa að gjalda fyrir það að vera ekki á íslenskum vinnumarkaði.“
„Lokaspurning: Er eitthvað sem þið mynduð vilja koma á framfæri til íslenskra námsmanna erlendis í aðdraganda kosninga?“
„Fara og kjósa. Ekki bara að fara að kjósa, heldur líka ef fólk er að pæla í að vilja fara aftur heim og hugsa, hvernig samfélags vil ég koma aftur heim til? Og hvernig flokkum treysti ég til að byggja þannig samfélag? Sem flokkur eins og Viðreisn, eða aðrir flokkar, geta breytt, það þarf að kjósa þessa flokka og sjá hvort það breyti einhverju.“
Já og nei spurningar:
„Viljið þið auka framlag til Menntasjóðs námsmanna?“ „Já“
„Viljið þið hækka skólagjaldalán?“ „Já.“
„Viljið þið leysa stjórnsýsluhindranir sem blasa við Íslendingum sem snúa aftur heim? Einhverjar sérstakar?“ „Já, fæðingarorlof, meta menntun til launa, að það borgi sig í alvörunni að mennta sig og að þú sért til dæmis ekki í einhverju óvissustigi hvort gráðan þín sé til starfsréttinda. Að það liggi beint fyrir og að við séum dugleg að innleiða menntun erlendis frá.“
„Viljið þið lækka vaxtaþak námslána?“ „Já.“
„Viljið þið hækka niðurfellingu námslána við námslok?“ „Já, en breyta þessu í styrkjakerfi.“
„Eruð þið hlynnt því að taka upp samskonar kerfi og eru á hinum Norðurlöndunum?“ „Já.“
„Finnst ykkur það hlutverk einstaklingsins eða samfélagsins að mennta sig?“ „Það er hlutverk samfélagsins að einstaklingurinn geti menntað sig og vilji mennta sig.“