Skip to main content

Sósíalistaflokkur Íslands

By 27/11/2024nóvember 29th, 2024Alþingiskosningar, SíNE fréttir, Viðtöl við flokka

Viðtalið er hluti af röð viðtala sem ritstjóri SÍNE tók við frambjóðendur flokka í komandi kosningum en spurningarnar beindust aðallega að málefnum tengdum Menntasjóði og kjörum námsmanna erlendis. SÍNE hafði samband við alla flokka í framboði, að undanskildum Ábyrgri framtíð þar sem hann býður einungis fram í einu kjördæmi.

„Húsnæðismarkaðurinn er alveg snarbrjálaður.“

Guðmundur Auðunsson skipar 3. sæti í Reykjavík norður fyrir Sósíalistaflokkinn. Hann er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, með B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og mastersgráðu frá John Hopkins University, School of Advanced International Studies í Bandaríkjunum. Katla Ársælsdóttir, ritstjóri SÍNE, settist niður með Guðmundi og ræddi meðal annars stöðu Menntasjóðsins og kjör námsmanna erlendis.

„Hvað vill þinn flokkur gera fyrir námsmenn erlendis?“

„Langtímamarkmið okkar er að breyta kerfinu, það er að segja Menntasjóðskerfinu, í eitthvað sem líkist meira danska kerfinu. Þar eru styrkir og lán til viðbótar ef þarf. Það er það sem við munum stefna að, þetta er mjög mikilvægt. Nám erlendis, sérstaklega í enskumælandi löndum, þar sem margir Íslendingar sækja nám, það er orðið mjög dýrt. Og þetta kemur sérstaklega niður á fólki bæði sem er að fara í sérhæft nám, eins og læknisfræði. Það er mjög dýrt nám og margir sjá ekki fram á að geta komið heim. Síðan eru það vísindamennirnir okkar, þeir fara gjarnan í langt nám, kannski doktorsnám, í sérhæfðum vísindum, og eins og margir þekkja þá eru vísindastörf ekki oft metin hátt að launum. Svo fólk situr oft eftir með skuldahala á bakinu sem gerir það stundum að verkum að fólk er að sækja í geira sem, af einhverjum ástæðum, hefur samfélagið sem við búum í ákveðið að séu mikilvægustu störfin þ.e.a.s. best borguð. Það er í fjármálageiranum. Og það er auðvitað mjög mikilvægt að losna undan þessu að mínu áliti vegna þess að við erum oft að ekki nýta okkar hæfileikaríkasta fólkið okkar á réttum stöðum í samfélaginu. Þess vegna viljum við setja á hvatakerfi, að lánin séu niðurfelld. Þá erum við að tala um stöðuna eins og hún er í dag. Ef við horfum framhjá framtíðarmarkmiðum okkar að koma á styrkjakerfi og ef það væri tengt að læknanemar kæmu til baka, jafnvel gæti verið hvati til þeirra þar sem er mönnunarskortur og reyna þannig að koma til móts við þarfir þar sem gengur illa að fá sérmenntað fólk eða vel menntað fólk í störf.“

Er eitthvað fleira sem þið viljið gera til að hvetja námsmenn erlendis til að flytja aftur heim? Og teljið þið þau kjör sem eru boðin upp á fyrir nýstúdenta hér á landi vera viðunandi?“

„Byrjunarlaun í mörgum geirum eru mjög lág. Það eru jafnvel stöður eftir langt nám eins og læknar og kennarar. Þegar litið er á heildarmyndina þurfum við að færa okkur frá því að nám þýði fjárfesting í framtíðinni en jafnframt skuldahali á bakinu. Það á frekar að líta á það sem starf. Það gæti leyst að mörgu leyti þennan vanda. Fyrir okkur Sósíalista þá lítum við svo á að markaðurinn getur virkað vel á ákveðnum sviðum, en vinnumarkaðurinn er gjörsamlega út úr kú. Að hæst launuðu störfin séu í fjármálageiranum, hann er auðvitað mikilvægur en hann er ekki næstum jafn mikilvægur og samfélagið virðist verðlauna fólk fyrir. Að það að meðhöndla peninga sé mikilvægara en að meðhöndla líf fólks eða börn.

En við fyrri spurningunni, þá bendi ég aftur á hvatakerfið sem ég var að minnast á áðan. Ég tel það mjög mikilvægt að búa til formúlur um niðurfellingu á lánum. Og hluti af þessu er þessi gífurlega pressa þegar fólk er að koma heim úr námi, með skuldahala á bakinu, það vill kannski stofna fjölskyldu og er að reyna að koma undir sig húsnæði. En húsnæðismarkaðurinn er alveg snarbrjálaður. Fólk er bara á góðum launum og ræður þá ekki við að kaupa því það nær aldrei að spara fyrir útborguninni, því að svo stór hluti af launatekjum þeirra fer í húsaleigu. Og þetta tengist auðvitað að mörgu leyti stefnumálum okkar í húsnæðismálum. Við viljum stórauka félagslegt húsnæði. Við viljum víkka þetta út þannig að það sé í boði fyrir alla. Þá fáum við þessa félagslegu blöndu innan húsnæðisins. Og þetta félagslega kerfi myndi gera það að verkum að taka eina af þessum pressum af námsmönnum sem eru að koma erlendis frá, að koma því í öruggt húsnæði. Það myndi breyta alveg gífurlega miklu. Ég held að þessi þáttur sé það sem gæti hjálpað mest fyrir ungt fólk eða fólk sem er að koma aftur úr námi.“

„„Telur þú Menntasjóð námsmanna, í núverandi mynd sinni, þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður?“

Vandamálið við þetta er að það er búið að hræra mikið í þessu. Ég var eitt sinn í stjórn lánasjóðsins, sem lánasjóðsfulltrúi SHÍ. Eitt af því sem við höfðum áhyggjur af, og ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að hafa áhyggjur af í samfélaginu, er það að við vorum frekar fylgjandi því að hækka grunnframfærslu töluvert, vegna þess að hún var allt of lág. Hún er enn allt of lág. Og þetta er alveg stóralvarlegt mál vegna þess að grundvallarskoðun okkar sem samfélags, allavega okkar Sósíalista, er það að allir eiga að geta farið út í nám án þess að vera skertur út frá fjárhagslegum bakgrunni svo dæmi sé nefnt.“

„Hvernig endurbætur sjáið þið fyrir ykkur varðandi Menntasjóð námsmanna, ef einhverjar?“

„Það þarf að stórauka uppbyggingu á félagslegu húsnæði fyrir stúdenta. Félagsstofnun stúdenta hefur staðið sig ágætlega, en mætti standa sig betur, og það er ekki henni endilega að kenna heldur er það spurningin um lóðir og stuðning frá hinu opinbera.

Menntasjóðurinn er eins og hann er. Það er hægt kannski að skrapa og bjarga sér ef þú ert ekki með stuðning fjölskyldu, en til lengdar verðum við að breyta þessu kerfi í einhvers konar blöndu af styrkjakerfi og lánakerfi, það er eðlilegt t.d. að það sé lánað fyrir skólagjöldum en þá þyrfti að vera einhver hvati fyrir fólk til að koma til baka. En varðandi framfærslu þá lítum við á að það eigi að vera styrkjakerfi.“

„Hver er ykkar afstaða til hækkunar á skólagjaldalánum þar sem það er þak sem nemur 7.500.000 milljónum króna og við erum að sjá fram á það að fólk sem er t.d. nemendur í Bretlandi eða eins og læknanemar í Ungverjalandi eru að ná því þaki frekar fljótt?“

„Ég kynntist þessu þaki þegar ég fór í nám sjálfur og mér finnst í eðli sínu ekki galið að hafa einhvers konar þak, þar sem við höfum takmarkað fjármagn að einhverju leyti. Aftur á móti má færa rök fyrir því að skólagjaldaþakið sé of lágt. Ég held að það sé nokkurn veginn á hreinu. Nám í mörgum löndum er mjög dýrt, svo er auðvitað dýrt sérnám sem við ráðum ekki við að mennta fólk í. Okkur vantar til að mynda fleiri lækna og við ráðum ekki við að mennta þá alla hérna heima af einhverjum ástæðum, og í mörgum löndum er nám dýrt og það þarf að vera einhvers konar kerfi sem tekur tillit til þess. Nám er nám og það eiga að vera jafnræðisreglur, en hins vegar, vegna stöðunnar, getur verið að það verði einhverjar sérreglur í ákveðnum sérfræðigreinum sem við þurfum sérstaklega á að halda.“

„Hreyfanleiki stúdenta milli landa og tækifæri til náms um allan heim, hafið þið þetta í huga þegar kemur að alþjóðastefnu og -samstarfi?“

„Þetta tel ég mjög mikilvægt og þetta segi ég sem maður sem hefur lært í þremur löndum. Þetta var ómetanleg reynsla og ég held að alþjóðleg samvinna á akademísku sviði sé alveg lífsnauðsynleg. Að byggja sér tengslanet fyrir ungt námsfólk er alveg gífurlega mikilvægt.

Við Sósíalistar erum miklir alþjóðasinnar, að byggja brýr og tengsl milli fólks sem tilheyrir mismunandi menningarheimum og er frá mismunandi löndum er alveg gífurlega mikilvægt. Hræðsla við útlendinga og hræðsla við eitthvað annað, það er meiri hætta á að hún komi fram hjá fólki sem að hefur ekki haft þessi tækifæri. Sem er annar liður í því hvers vegna okkur þykir þetta mikilvægt.“

„Hvert er ykkar viðhorf til þess að skattleggja námsstyrki?“

„Ég hef ekki kynnt mér þetta alveg nákvæmlega en mér finnst dálítið skrítið að það sé verið að skattleggja styrki sem þú færð fyrir nám erlendis.“

„Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að greiða aðgengi fjölskyldufólks að því að fara út sem og að snúa heim úr námi erlendis með tilliti til fæðingarorlofssjóðs námsmanna?“

„Það þarf að leysa þau vandamál sem námsmenn sem eignast eða eiga von á barni standa frammi fyrir. Það verður að taka tillit til ýmissa þátta, til dæmis að barnshafandi konur geta oft verið veikar og ráða ekki við að klára fullt nám. Ef þær væru á vinnumarkaðnum væri tekið tillit til þess, og okkur finnst eðlilegt að í námi gildi það sama. Ég held að þetta skipti líka gífurlega miklu máli vegna þess að við erum í vandræðum með að fá sumt af okkar færasta fólki aftur til landsins og þegar við erum með kerfi sem segir eiginlega: „Þú ert eiginlega ekkert inni í okkar íslenska samfélagi lengur og hefur því ekki sömu réttindi og ef þú hefðir haldið þig hér heima“. Það virkar mjög neikvætt fyrir fólk, skiljanlega. Ég þekki dæmi um ungar barnafjölskyldur sem hugsuðu sig tvisvar um hvort þau ættu að flytja heim aftur, fólk sem hefur komið sér vel fyrir erlendis og á erfitt með að sjá hag sinn í því að flytja aftur heim í samfélagið eins og það er nú. Ég held að við sem samfélag verðum að gera samfélagið þannig að fólkið sjái að það sé eftirsóknarvert að koma heim, vegna þess að það er auðvitað svo margt sem togar fólk heim en brjálaður leigumarkaður, aukið óréttlæti í samfélaginu, misskipting, auðsöfnun á kostnað auðlindarentu sem örfáar fjölskyldur eru búnar að safna undir sig, þetta gerir Ísland ekkert mjög sjarmerandi.“

„Hverjar eru ykkar skoðanir á tímatakmörkum námsárangurs, þ.e. að námsmenn þurfi að ljúka námi innan tilskilins tímaramma til að hljóta 30% niðurfellingu á láninu?“

„Það er ekkert að því að halda mönnum við efnið, en það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk ílengist í námi og við verðum að taka það með í reikninginn. Mér finnst þessar reglur heldur stífar og þetta kemur sérstaklega niður á fólki sem er kannski að vinna, og vinna mikið, með skóla vegna fjárhagsstöðu. Ég held að þetta séu of strangar reglur. Það er kannski eðlilegt að setja eitthvað þak, en eitt ár, mér finnst það óeðlilegt sérstaklega þegar fólk getur búið við húsnæðisskort, þarf að vinna mikið með og svo framvegis. Það á allavega að lengja þetta.“

Já og nei spurningar

„Viljið þið auka framlag?“ „Já!“

„Viljið þið hækka skólagjaldalán?“ „Já að hluta, bæði og. Það má hækka það en ekki hafa það ótakmarkað.“

„Viljið þið lækka vaxtaþak?“ „Já, klárlega.“

„Viljið þið hækka niðurfellingu námslána?“ „Já, og það tengist líka okkar hugmynd um að breyta yfir í styrkjakerfi.“

„Eruð þið hlynnt því að taka upp samskonar kerfi og er á hinum Norðurlöndunum?“ „Já.“ 

„Finnst ykkur það hlutverk einstaklingsins eða samfélagsins að mennta sig?“

„Það er hlutverk samfélagsins að sjá til þess að fólk geti menntað sig. Einstaklingurinn er sá sem velur hvaða menntaleið hann fer en það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja það að allir hafi jafnt aðgengi að námi óháð fjárhagslegri stöðu, fötlun eða öðrum hindrunum.“

„Þannig að þetta er ákveðið samstarfsverkefni?“

„Já, við Sósíalistarnir erum miklir samvinnumenn.“

„Lokaspurning, er eitthvað sem þið viljið koma á framfæri til námsmanna erlendis?“

„Ég veit að mörg ykkar eru að velta fyrir sér, hvers vegna ætti ég að flytja heim? Ég vona að sem flest ykkar komi heim, ég hef verið í ykkar stöðu en ég vona að sem flest komi heim eða stimpli sig að minnsta kosti ekki út úr íslensku samfélagi. Vegna þess að við þurfum að breyta mörgu í íslensku samfélagi og þá þurfum við öll að vera þátttakendur í því, hvort sem við erum erlendis eða ekki. Ef íslenskt samfélag skiptir okkur máli þá eigum við að vera þátttakendur en ekki stimpla okkur út.“