Á heimleið – Sjúkratryggingar við flutning heim eftir nám
Þegar flutt er aftur til Íslands er eitt af fyrstu skrefunum að flytja lögheimili sitt á nýtt heimilisfang á Íslandi. Við það dettur yfirleitt erlenda Evrópska sjúkratryggingakortið strax úr gildi og þarf því að sækja sérstaklega um að fá sjúkratryggingar hjá Sjúkratryggingum Íslands – það gerist ekki sjálfkrafa við flutning heim.
Hægt er að sækja íslenska læknisþjónustu á meðan, og borgað eins og ósjúkratryggður – en óska má eftir að fá endurgreiðslu þegar umsóknin hefur verið samþykkt því að réttindin munu miðast við daginn sem flutt var til Íslands.
Námsmenn sem flytja aftur til Íslands innan sex mánaða frá námslokum þurfa að skila inn eftirfarandi gögnum til að vera tryggð frá og með þeim degi er lögheimili er skráð aftur á Íslandi.
- staðfestingu á námi
- umsókn um sjúkratryggingu
Flutningur til Íslands frá Norðurlöndunum
Einstaklingar sem búa skemur en 12 mánuði á Norðurlöndunum verða sjálfkrafa sjúkratryggð á Íslandi um leið og lögheimilisskráning fer í gegn hjá Þjóðskrá við flutning heim.
Búi einstaklingur á Norðurlöndum lengur en nemur 12 mánuðum þarf fyrst að færa lögheimili aftur til Íslands hjá Þjóðskrá þar sem Sjúkratryggingar Íslands eru bundnar við lögheimilisskráningu. Sjúkratryggingum Íslands þarf einnig að berast umsókn um sjúkratryggingu, umsóknareyðublaðið má finna inná sjukra.is og umsóknina má senda í gegnum tölvupóst eða í Réttindagátt á sjukra.is.
Sjúkratryggingar Íslands þurfa einnig staðfestingu á að einstaklingar hafið verið í almanna tryggingakerfinu erlendis fyrir flutning aftur til Íslands. Þá skal námsmaðurinn senda afrit af erlenda tryggingarkorti sínu (framhlið og bakhlið) sem staðfestir það – þessi regla á bara við um einstaklinga eru að flytja frá Norðurlöndunum.
Námsmenn á Norðurlöndunum sem koma til Íslands á meðan á námstíma varir geta óskað eftir því að vera tímabundið sjúkratryggðir á meðan þeir dvelja á Íslandi. Senda þarf inn umsókn um tímabundna sjúkratryggingu tveimur vikum fyrir komu til landsins. Henni þarf að fylgja staðfesting á námi.
Flutningur til Íslands frá löndum innan EES
Ef námsmenn flytja heim frá löndum innan EES þá þarf að berast umsókn um sjúkratryggingar. Sjúkratryggingar Íslands senda þá fyrirspurn til fyrra búsetulands til staðfestingar á að námsmaðurinn hafi verið tryggður í því landi. Þegar Sjúkratryggingum hefur borist svar að utan verður viðkomandi tryggður frá lögheimilisskráningu, því réttindin miðast við dagsetninguna er lögheimilið er flutt.
Námsmenn erlendis, utan Norðurlandanna, geta haldið lögheimili sínu á Íslandi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Námsmenn þurfa þó að kynna sér vel reglur þess lands sem farið er til.
Að lokum hvetur SÍNE fólk sem hefur spurningar að hafa samband við Sjúkratryggingar Íslands í gegnum tölvupóst á international@sjukra.is eða í síma +354 515 0000.