Skip to main content

Alþingiskosningar 2024

Það getur verið yfirþyrmandi að finna útúr því hvernig þú átt að kjósa, þegar þú ert staddur við nám erlendis. Hér má finna allar helstu upplýsingar um hvar og hvernig námsmenn geta kosið. Einnig má finna upplýsingar um flokka í framboði og áherslur þeirra gagnvart námsmönnum erlendis. 

 


Utankjörfundarkosning á Íslandi

Ef kjósandi hefur ekki tök á að kjósa á sínum kjörstað þann 30. nóvember nk. er hægt að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumönnum. Hér er hægt að sjá staðsetningar og opnunartíma sýslumanna.  

Athugið að ef kosið er utankjörfundar á kjördag þarf kjósandi sjálfur að koma atkvæði sínu til skila til kjörstjórnar í því sveitarfélagi sem kjósandi er á kjörskrá. 


Utankjörfundarkosning erlendis

Ef þú ert í útlöndum þarf að kjósa hjá sendiherra eða ræðismanni en atkvæðið þarf að senda með póst heim til Íslands og því mikilvægt að kjósa sem fyrst!

Kosning utan kjörfundar erlendis fer fram hjá:

  • Sendiráðum Íslands og aðalræðisskrifstofum
  • Fastanefndum Íslands hjá alþjóðastofnunum
  • Ræðismönnum Íslands samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins.

Kjósendum er bent á að fylgjast með vefsíðum og samfélagsmiðlum sendiskrifstofa til að sjá opnunartíma fyrir kosningar en hafa beint samband við kjörræðismenn hyggist þeir kjósa hjá þeim.

1. Hvað þarftu að hafa með?

Kjósendur þurfa að framvísa persónuskilríkjum með mynd, helst íslensku vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini.

2. Hvernig fer kosningin fram?

Kjósandi fær afhent:

  • kjörseðil
  • umslag utan um kjörseðilinn
  • fylgibréf með kjörseðlinum
  • annað umslag fyrir póstsendingu

Kjörseðill við kosningu utan kjörfundar er auður, á honum eru ekki nöfn flokka í framboði. Kjósandi skrifar eða stimplar listabókstaf þess flokks sem hann vill kjósa á seðilinn. Kjörseðillinn fer í ómerkt kjörseðilsumslagið og skal það límt aftur og lokað.

Fylgibréfið með kjörseðlinum, þar sem fram koma upplýsingar um kjósandann og hvert atkvæðið á að berast, þarf að vera undirritað af kjósanda og kjörstjóra.

Kjörseðilsumslagið og fylgibréfið fara saman í sendiumslag sem fylgir kjörgögnum. Á framhliðinni stendur heimilisfang sýslumanns eða kjörstjórnar, samkvæmt kjörskrá. Á bakhlið stendur nafn, kennitala og lögheimili kjósanda.

 

3. Hvert skal senda atkvæðið?

Veistu hvaða kjördæmi þú tilheyrir?

Þegar Íslendingar hafa flutt lögheimili sitt erlendis er kjördæmi þeirra enn þar sem síðasta skráða lögheimili á Íslandi var. Hafi þeir búið erlendis skemur en 16 ár eru þeir enn á kjörskrá, en þurfa að sækja um að vera látnir á kjörskrá hafi þeir búið erlendis lengur en 16 ár. Sé kjósandi í vafa um hvar kjördæmi þitt er er hægt að fletta því upp með kennitölu hér eða með því að hafa samband við kosningar@skra.is

Hvert skal senda atkvæðisbréfið?

Atkvæði eru stíluð á það sveitarfélag sem viðkomandi er/var síðast skráður með lögheimili í. Hér er hægt að finna lista yfir heimilisföng hjá sveitarfélögum, en kjörræðismenn okkar og sendiráð eru líka með þessar upplýsingar.

4. Hvernig kemst atkvæðisbréfið til Íslands?

Kjósandi ber ábyrgð á að koma atkvæðinu sínu á réttan stað, til sýslumanns eða kjörstjórnar sem viðkomandi er á kjörskrá hjá. Hægt er að setja bréfið í póst, eða afhenda það einhverjum sem kjósandi felur að koma því til skila.

Samkvæmt lögum er kjörstjóra skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst á kostnað kjósanda en gott er að koma atkvæði sínu sjálfur til skila með skráðum pósti svo öruggt sé að það berist í tæka tíð eða óskráðum pósti sé stutt í kjördag.

Einnig má senda atkvæðið heim til Íslands með manneskju sem kjósandi treystir, t.d. vin eða fjölskyldumeðlim, til að koma atkvæðinu sínu til skila á réttan stað.

Atkvæðisbréfið þarf að hafa borist kjörstjórn eða í einhverja kjördeild í kjördæmi kjósanda fyrir lokun kjörstaða á kjördag.

Það er ekkert íslenskt sendiráð í námslandi mínu – hvað geri ég?

Þá eru góðar líkur á að það séu kjörræðismenn í námslandi þínu! Þú getur flett upp námslandi þínu hér. Ferlið er mjög svipað hjá ræðismönnum og hjá sendiráðum. Eini munurinn í raun er að kjósandi þarf sjálfur að fylla út fylgibréf með atkvæðaseðlinum og sendiumslagið ef kosið er hjá ræðismanni. Ræðismenn Íslands hafa fengið skýrar leiðbeiningar um ferlið og geta alltaf veitt ráðgjöf ef eitthvað er óskýrt.

 

 

Viðtöl við stjórnmálaflokka