Lög SÍNE

Lög Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE)

I.Kafli Nafn og tilgangur.

1.gr. Nafn og heimili

Nafn félagsins er Samband íslenskra námsmanna erlendis, skammstafað SÍNE. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna sem stunda nám erlendis og vera tengiliður þeirra við þau stjórnvöld sem koma að kjörum þeirra á Íslandi.

II.Kafli Félagsaðild.

3.gr. Aðild

Allir íslenskir námsmenn erlendis geta óskað eftir félagsaðild að SÍNE gegn greiðslu árgjalds. Auk þess geta þeir námsmenn sem áður hafa lokið námi erlendis sótt um aðild að félaginu í allt að sjö ár frá því að námi þeirra lýkur.

4.gr. Hámark aðildar

Félagsaðild að SÍNE varir svo lengi sem námsmaður er í námi erlendis og greiðir árgjald hvert námsár. Hins vegar getur aðildarfélagi að SÍNE, sem lokið hefur námi sínu erlendis, haldið félagsaðild í sjö ár eftir að námi lýkur án greiðslu árgjalds.

5. gr. Úrsögn

Vilji félagi segja sig úr SÍNE skal hann koma þeirri beiðni sinni á framfæri við SÍNE ýmist bréfleiðis eða gegnum tölvupóst. Félagsmaður öðlast ekki rétt á endurgreiðslu árgjalds segi hann sig úr félaginu

III.Kafli Jólafundur SÍNE

6. gr. Jólafundur

Stjórn SÍNE er skylt að halda sérstakan Jólafund komi beiðni þar um frá minnst tíu félagsmönnum í síðasta lagi 15. nóvember hvert ár. Skal þá halda Jólafund SÍNE í Reykjavík í desember mánuði. Jólafundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins ásamt Sumarráðstefnu þess. Stjórn SÍNE skal boða félagsmenn sína til jólafundar með fundarboði stjórnar sem birta skal á vefsíðu félagsins með tveggja vikna fyrirvara. Atkvæðisrétt á jólafundi hafa einungis fullgildir félagsmenn SÍNE auk stjórnar en hver einstaklingur hefur eitt atkvæði. Við atkvæðagreiðslu skal einfaldur meirihluti atkvæða á löglega boðuðum fundi ráða niðurstöðu mála.

7. gr. Dagskrá Jólafundar

Á dagskrá Jólafundar skulu vera eftirtaldir liðir:

a) Setning Jólafundar.

b) Kosning fundarstjóra og fundarritara.

c) Skýrsla fulltrúa SÍNE í Menntasjóði námsmanna um haustmisserið lögð fram ásamt umræðum.

d) Skýrsla stjórnar SÍNE um haustmisserið lögð fram ásamt umræðum.

e) Reikningsyfirlit fyrir tímabilið 1. júní til áramóta lagt fram.

f) Tillögur til ályktunar jólafundar afgreiddar.

g) Tillögur um stjórn og skoðunarmenn reikninga

h) Önnur mál

i) Jólafundi slitið

IV. Kafli Sumarráðstefna SÍNE

8. gr. Sumarráðstefna
Sumarráðstefnu SÍNE skal halda í Reykjavík á tímabilinu frá og með 1. júní til og með 15. ágúst. Sumarráðstefna hefur æðsta vald í málefnum félagsins ásamt Jólafundi þess. Stjórn SÍNE ber að boða félagsmenn sína til Sumarráðstefnu með fundarboði stjórnar sem birta skal á vefsíðu félagsins með minnst mánaðar fyrirvara. Atkvæðisrétt á Sumarráðstefnu SÍNE hafa einungis fullgildir félagsmenn SÍNE auk stjórnar. Við atkvæðagreiðslu skal einfaldur meirihluti atkvæða á löglega boðuðum fundi ráða niðurstöðu mála.

9.gr. Dagskrá Sumarráðstefnu

Á dagskrá Sumarráðstefnu SÍNE skulu vera eftirtaldir liðir:

a) Setning Sumarráðstefnu.

b) Kosning fundarstjóra og fundarritara.

c) Skýrsla fulltrúa SÍNE í stjórn Menntasjóði námsmanna um vormisseri lögð fram ásamt umræðum

d) Skýrsla stjórnar SÍNE um vormisserið lögð fram ásamt umræðum.

e) Endurskoðaðir reikningar fyrir starfsárið teknir til afgreiðslu

f) Stjórnarskipti

g) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

h) Ákvörðun um upphæð árgjalda fyrir komandi starfsár

i) Lagabreytingar

j) Önnur mál

k) Sumarráðstefnu slitið

V.Kafli Stjórn og framkvæmdastjóri SÍNE

10. gr. Stjórn

Stjórn SÍNE situr í Reykjavík og skal kosið til hennar á sumarráðstefnu félagsins en stjórn þess skipa minnst fimm og mest níu aðalmenn. Fullgildir félagsmenn eru kjörgengir í stjórn. Á Sumarráðstefnu skal kosið til forseta, en að öðru leyti skiptir hún sjálf með sér verkum og eftir atvikum skipar varaforseta, ritara og gjaldkera. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti úrlausn mála. Stjórnarmenn eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda.

11. gr. Verkefni og hlutverk stjórnar

Stjórn SÍNE fer með æðsta vald í málefnum sambandsins á milli Sumarráðstefnu og Jólafundar. Hlutverk stjórnar er að gæta hagsmuna félagsmanna í samræmi við tilgang SÍNE og ber skylda að gæta þess að ákvarðanir stjórnar fari eigi í bága við lög félagsins. Að meginreglu skal stjórn leita eftir vitneskju um vilja félagsmanna vegna ákvarðanna er varða verulega hagsmuni þess, ýmist með tölvupóstum til félagsmanna eða áskorunum á vefsíðu SÍNE eða samfélagsmiðlum.

12. gr. Kjör stjórnar

Þeir aðilar sem flest atkvæði ná í kjöri til stjórnar SÍNE skulu teljast réttkjörnir stjórnarmenn en hver félagsmaður hefur eitt atkvæði. Í þeirri stöðu að tveir eða fleiri hljóti sama atkvæðismagn til sjöunda og síðasta sætis stjórnar skal kosið sérstaklega þeirra á milli. Ef atkvæði standa enn á jöfnu skal sá félagsmaður er styðst er síðan lauk nám erlendis hljóta kjör til stjórnar. Luku þeir námi erlendis á sama ári skal varpað hlutkesti þeirra á milli.

13. Kjör stjórnarmanna í sérstökum tilfellum

Þegar svo stendur á að stjórn SÍNE er ekki skipuð níu aðalmönnum er heimilt, með samþykki 2/3 hluta stjórnar, að skipa stjórnarmann í stjórn félagsins á opnum stjórnarfundi. Þegar svo stendur á skal auglýst með minnst tveggja vikna fyrirvara á vefsíðu félagsins að óskað sé eftir frekari aðilum í stjórn þess. Auk þess skal dagsetning og staðsetning fundarins auglýst þar sem öllum félagsmönnum er bent á að þeir geti boðið sig fram til stjórnar. Bjóði félagsmenn sig fram til stjórnar félagsins svo mögulegt sé að skipa níu stjórnarmenn er ekki heimilt að skipa utanfélagsmann í stjórn SÍNE. Einungis er hægt að skipa tiltekin utanfélagsmann í stjórn SÍNE tvisvar og að hámarki til tveggja námsára. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út við upphaf stjórnarfundar.

14. gr. Fundir

Stjórn SÍNE ber ábyrgð á að funda reglulega um málefni sambandsins og skal stefnt að því að funda hið minnsta á tveggja mánaðar fresti.

15. gr. Stjórnarseta á vegum SÍNE

Stjórn SÍNE skipar fulltrúa af hálfu félagsins í stjórn Menntasjóðs námsmanna, Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) og Landssambands ungmenntafélaga (LUF) og gæta þeir hagsmuna félagsmanna SÍNE í öllu. Þá getur stjórn SÍNE tilnefnt fulltrúa í aðrar nefndir, stjórnir eða ráð sem varða hagsmuni félagsins. Þá er stjórn SÍNE heimilt að skipa undirnefndir eða setja á fót undirfélög, jafnt hér á landi sem og erlendis, sem gæta hagsmuna félagsmanna. Stjórn SÍNE er heimilt að segja sig úr ofangreindum stjórnum, nefndum og ráðum með samþykki allra stjórnarmanna er viðstaddir eru löglega boðaðan stjórnarfund. Einfaldur meirihluti atkvæða félagsmanna á Sumarráðstefnu eða Jólafundi dugar til hins sama. Einungis er hægt að skipa félagsmann eða stjórnarmann SÍNE í stjórnir, nefndir og ráð á vegum félagsins.

16. gr. Vantraust

Þegar svo ber undir að hið minnsta tuttugu skráðir félagsmenn SÍNE lýsi yfir vantrausti á stjórn, í gegnum bréf- eða tölvupóst á milli Sumarráðstefnu og Jólafundar félagsins, skal kosið aftur til stjórnar á jólafundi félagsins eftir þeim reglum sem gilda í lögum þessum um stjórnarkjör á Sumarráðstefnu félagsins.

17. Framkvæmdastjóri

Stjórn SÍNE er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að sinna verkefnum og fara með daglega starfsemi af hálfu félagsins. Þá skal framkvæmdastjóri sjá um útgáfu Sæmundar, málgagns SÍNE, sem skal vera opinn öllum félagsmönnum SÍNE. Félagsmönnum skal með hæfilegum fyrirvara gerð grein fyrir loka skilafresti efnis í hvert blað.

Framkvæmdastjóra er heimilt að sitja á öllum fundum SÍNE og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Undirskrift framkvæmdastjóra bindur sambandið vegna ráðstafanna er varða daglegan rekstur þess. Starfs- og launakjör framkvæmdastjóra eru ákveðin af stjórn. Stjórn er ennfremur heimilt að ráða sér starfsmenn, semja um kaup þeirra og kjör sem og ákveða starfssvið þeirra.

VI.Kafli Fjármál.

18. gr. Fjárreiður og bókhald

Stjórn SÍNE er heimilt að fela framkvæmdastjóra eða öðrum launuðum starfsmanni að annast fjárreiður og bókhald SÍNE í umboði stjórnar.

19. gr. Reikningsár

Reikningsár SÍNE er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

20. gr. Árgjald SÍNE

Stjórn SÍNE er heimilt með samþykki 2/3 hluta stjórnarmanna að breyta árgjaldi SÍNE. Sé breyting gerð til hækkunar skal hún þó ekki nema meira en 20% á hverju ári. Heimilt er að breyta árgjaldi á Sumarráðstefnu SÍNE með einföldum meirihluta greiddra atkvæða.

21.gr. Lagabreytingar

Lagabreytingartillögur skulu lagðar fram og hljóta umfjöllun á Sumarráðstefnu SÍNE. Skulu breytingartillögur að lögum félagsins hafa borist stjórn félagsins í síðasta lagi viku fyrir upphaf þeirrar sumarráðstefnu sem þær eiga að hljóta umfjöllun á. Stjórn SÍNE skal birta þær lagabreytingartillögur sem borist hafa innan tímamarka á vefsíðu félagsins í síðasta lagi þremur dögum fyrir Sumarráðstefnu. Skal sú tillaga sem flest atkvæði hlýtur teljast hafa hlotið samþykki sem ný lög félagsins.

22.gr. Lagaskil

Samþykktar lagabreytingar félagsins taka gildi um leið og þær hafa verið birtar á vefsíðu SÍNE. Stjórn félagsins skal koma því til leiðar að ný samþykkt lög verði birt eins fljótt og auðið er og ekki síðar en fimm dögum eftir Sumarráðstefnu. Liggi vefsíða félagsins niðri skal birta lög SÍNE ásamt ný samþykktum lagabreytingartillögum um leið og unnt er. Þangað til skulu gildandi lög SÍNE ráða úrslitum.