Lög SÍNE

I.Kafli Nafn og tilgangur félagsins.

1.gr.

Nafn félagsins er Samband íslenskra námsmanna erlendis, skammstafað SÍNE. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr.

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna sem stunda nám erlendis og vera tengiliður þeirra við þau stjórnvöld sem koma að kjörum þeirra á Íslandi.

II.Kafli Félagsaðild.

3.gr.

Allir íslenskir námsmenn erlendis geta óskað eftir félagsaðild að SÍNE gegn greiðslu félagsgjalds.

Íslenskir námsmenn erlendis sem ekki njóta lána frá LÍN eða öðrum sambærilegum lánastofnunum, þar sem nám viðkomandi námsmanns telst ekki vera lánshæft samkvæmt reglum ofangreindra lánastofnana, geta óskað eftir félagsaðild að SÍNE án greiðslu félagsgjalda.

4.gr.

Félagsaðild að SÍNE varir svo lengi sem námsmaður er í námi erlendis.

SÍNE félagi sem lokið hefur námi sínu erlendis getur gengið í stjórn SÍNE næstu þrjú árin eftir að námi hans lauk og verið félagi í fimm ár eftir að námi lýkur.

III.Kafli Stjórn, starfsmenn og málgagn SÍNE.

5.gr.

Kjörgengi til stjórnar SÍNE hafa allir félagsmenn SÍNE sem lokið hafa námi. Geta félagsmenn SÍNE þannig verið í stjórn félagsins í allt að þrjú ár frá því að námi þeirra lýkur. Stjórn SÍNE skipa minnst þrír og mest sjö aðalmenn. Stjórn SÍNE skal kosin á sumarráðstefnu SÍNE skv. 17.gr. Þar sem þeir aðilar sem flest atkvæði ná í kjöri til stjórnar SÍNE skulu teljast réttkjörnir stjórnarmenn.

6.gr.

Stjórn SÍNE situr í Reykjavík og skiptir sjálf með sér verkum.

Stjórnarmenn eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Niðurstaða allsherjaratkvæðagreiðslu innan félagsins svo og ákvarðanir og ályktanir sem stafa frá sumarráðstefnu og jólafundi SÍNE eru bindandi fyrir stjórn.

7.gr.

Þriggja manna kjörstjórn, kosin á jólafundi ár hvert, sér um framkvæmd kosninga og talningu atkvæða.

8.gr.

Kjósa skal tvo endurskoðendur og tvo til vara samkvæmt 18.gr. laganna.

9.gr.

Stjórn SÍNE ber að afla sér vitneskju um vilja félagsmanna áður en hún tekur mikilvægar ákvarðanir.

10.gr.

Stjórn SÍNE er heimilt að ráða sér starfsmann, einn eða fleiri, semja við hann um kaup og kjör og ákveða starfssvið. Starfsmaðurinn skal sitja alla stjórnarfundi. Sæmundur, málgagn SÍNE, skal vera opinn öllum félagsmönnum SÍNE án tillits til stjórnmálaskoðana og námslands. Félagsmönnum skal með góðum fyrirvara gerð grein fyrir loka skilafresti efnis í hvert blað.

11.gr.

Trúnaðarmenn skulu vera tengiliðir milli félagsmanna og stjórnar SÍNE. Trúnaðarmenn skulu halda reglulega fundi með félögum.

IV.Kafli Fjármál.

12.gr.

Stjórn SÍNE er heimilt að fela launuðum starfsmanni að annast fjárreiður og bókhald SÍNE í umboði stjórnar.

13.gr.

Reikningsár SÍNE er frá 1.júlí til 30.júní ár hvert.

14.gr.

Stjórn SÍNE er heimilt að breyta árgjaldi 1.september, ár hvert, í samræmi við hækkun á framfærsluvísitölu undanfarið eitt ár. Ef fyrirhuguð hækkun er meiri þá skal hún afgreidd á sumarráðstefnu SÍNE.

V.Kafli Æðstu fundir í málefnum SÍNE.

15.gr.

Æðstu fundir í málefnum SÍNE eru jólafundur og sumarráðstefna SÍNE.

Jólafund SÍNE skal halda í Reykjavík árlega milli jóla og nýárs. Stjórn SÍNE ber að boða félagsmenn sína til jólafundar með fundarboði stjórnar sem birtast skal í síðasta tölublaði af Sæmundi eða Sæma fyrir jól.

Tillögur til breytinga á lögum SÍNE skulu berast stjórn SÍNE eigi síðar en 1.desember fyrir þann jólafund þar sem þær eiga að hljóta umfjöllun.

Sumarráðstefnu SÍNE skal halda í Reykjavík í fyrstu vikunni eftir verslunarmannahelgi. Stjórn SÍNE ber að boða félagsmenn sína til sumarráðstefnu með fundarboði stjórnar sem birtast skal í síðasta tölublaði af Sæmundi eða Sæma fyrir sumarleyfi. Atkvæðisrétt á jólafundi og sumarráðstefnu SÍNE hafa einungis fullgildir félagsmenn SÍNE auk stjórnar. Við atkvæðagreiðslu skal meirihluti atkvæða á löglega boðuðum fundi ráða niðurstöðu mála. Skal hér miða við að einfaldur meirihluti atkvæða ráði lyktum mála.

16.gr.

Á dagskrá jólafundar skulu vera eftirtaldir liðir:

 • a) Setning jólafundar
 • b) Kosning fundarstjóra og fundarritara
 • c) Skýrsla stjórnar og fulltrúa SÍNE í stjórn LÍN um haustmisserið lögð fram ásamt umræðum
 • d) Reikningsyfirlit fyrir tímabilið 1.júní til áramóta lagt fram
 • e) Tillögur um lagabreytingar
 • f) Tillögur til ályktunar jólafundar afgreiddar
 • g) Kosning kjörstjórnar skv. 7.gr.
 • h) Tillögur um stjórn og endurskoðendur
 • i) Önnur mál
 • j) Jólafundi slitið

17.gr.

Á dagskrá sumarráðstefnu SÍNE skulu vera eftirtaldir liðir:

 • a) Setning sumarráðstefnu
 • b) Kosning fundarstjóra og fundarritara
 • c) Skýrsla stjórnar og fulltrúa SÍNE í stjórn LÍN um vormisseri lögð fram ásamt umræðum
 • d) Endurskoðaðir reikningar fyrir starfsárið teknir til afgreiðslu
 • e) Stjórnarskipti
 • f) Kosning tveggja endurskoðenda og tveggja til vara
 • g) Ákvörðun um upphæð árgjalda fyrir komandi starfsár
 • h) Önnur mál
 • i) Sumarráðstefnu slitið

18.gr.

Æðsta vald í málefnum SÍNE er allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna. Einfaldur meirihluti stjórnar SÍNE getur óskað eftir því að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna. Allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SÍNE skal einnig fara fram ef tillaga þar að lútandi kemur fram frá að minsta kosti 25 atkvæðisbærum félagsmönnnum.

19.gr.

Kjörstjórn setur almennar reglur um framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu og skal hún gæta fyllsta hlutleysis. Kjörstjórn skal birta kjörgögn og póstleggja atkvæðaseðla eigi síðar en 15.mars en atkvæðaseðlar skulu póstlagðir til kjörstjórnar eigi síðar en 1.maí ellegar skulu þeir teljast ógildir. Á kjörseðli til stjórnarkjörs skulu vera nöfn frambjóðenda og námslönd.

VI.Kafli Lög og breytingar.

20.gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt með allsherjaratkvæðagreiðslu innan félagsins. Lagabreytingartillögur skulu lagðar fram og hljóta umfjöllun á jólafundi SÍNE. Skulu breytingartillögur að lögum SÍNE hafa borist stjórn SÍNE fyrir 1.desember fyrir þann jólafund þar sem þær eiga að hljóta umfjöllun á. Við lagabreytingartillögur sem fram koma á jólafundi SÍNE ásamt gildandi lögum til allsherjaratkvæðagreiðslu skv. 16., 18. og 19.gr. laga þessara. Skal sú tillaga sem flest atkvæði hlýtur í allsherjaratkvæðagreiðslu teljast hafa hlotið samþykki sem ný SÍNE lög.

21.gr.

Lagabreytingartillögur sem komið hafa fram á jólafundi SÍNE og hlotið samþykki í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna SÍNE sbr. 16., 18., 19. og 20.gr. laga þessara skulu öðlast gildi um leið og þau hafa hlotið samþykki.

22.gr.

Á þeim tíma sem líður milli samþykktar á nýjum lögum og kynningar á þeim meðal félagsmanna SÍNE skulu gildandi lög ráða úrslitum.