Skip to main content

Svör frá Viðreisn – stjórnmálin og námslánakerfið

Spurningar til stjórnmálaflokka um námslánakerfið : Svör Viðreisnar

 

  1. Er það stefna þíns flokks að koma á nýju námslánakerfi? Ef já, munu fulltrúa námsmannahreyfinganna fá að taka þátt í þeirri vinnu frá upphafi til enda?

 

Viðreisn vill sjá þá breytingu á námslánakerfinu að það sé árangurshvetjandi í formi styrkja. Viðreisn talar fyrir auknu gagnsæi í allri stjórnsýslu og telur mikilvægt að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem þekkja aðstæður af eigin raun. Því er mikilvægt að hlustað sé á sjónarmið námsmannahreyfinganna við endurskoðun á námslánakerfinu.

 

  1. Hvað teljið þið að ætti að vera tilgangur og/eða markmið nýs námalánakerfis?

Námslán eiga að miða að því að allir hafi jöfn tækifæri til háskólanáms óháð efnahag og búsetu. Liður í því er að afborganir námslána hafi ekki áhrif á val á námsbraut og eiga afborganir því að vera tekjutengdar.

 

  1. Hvað teljið þið að séu mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis?

Námsmenn erlendis þekkja auðvitað best hver brýnustu hagsmunamálin eru hverju sinni en benda má á þrjú mikilvæg mál. Í fyrsta lagi er stöðugt gengi krónunnar nauðsynlegt til að tryggja fyrirsjáanleika fyrir námsmenn erlendis. Í öðru lagi þarf framfærsluviðmið að taka mið af raunverulegum kostnaði við framfærslu á viðkomandi stað. Í þriðja lagi mega tekjuskerðingar ekki vera svo miklar að það sé ómögulegt að fara í nám erlendis eftir að hafa verið á vinnumrakaði.

 

  1. Hvernig stefnið þið að því að gæta þessara hagsmuna?

Viðreisn ætlar að tryggja stöðugt gengi krónunnar með Myntráði, þ.e. með því að festa gengi krónunnar. Hagsmuni námsmanna erlendis þarf síðan að hafa í huga við endurskoðun námslánakerfis og úthlutunarreglna hverju sinni.

 

  1. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að 1/3 af heildarfjárhæð námsaðstoðar frá LÍN verði að styrkjum skilyrðislaust og komið til framkvæmda í síðasta lagi fyrir skólaárið 2018-2019?

Viðreisn hefur ekki tekið saman lista af skilyrðum fyrir ríkisstjórnarsamstarfi en leggur áherslu á að málefni ráði för við stjórnarmyndun. Í málefnastefnu Viðreisnar kemur fram að það sé stefna Viðreisnar að stuðningur við námsmenn í námslánakerfi sé sýnilegur og í formi styrkja.

 

  1. Vill þinn flokkur hafa aukna styrki með skilyrðum, t.d. um að þú setjist að á Íslandi eða utan höfuðborgarsvæðisins eftir nám?

Slík skilyrði eru ekki á stefnuskrá Viðreisnar.

  1. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að farið verði í það tafarlaust að endurskoða framfærsluþörf námsmanna erlendis?

Viðreisn hefur ekki tekið saman lista af skilyrðum fyrir ríkisstjórnarsamstarfi en leggur áherslu á að málefni ráði för við stjórnarmyndun. Mikilvægt er að námslán taki mið af raunverulegum framfærslukostnaði til að tryggja jafnan aðgang að námi.

 

  1. Síðustu þrjú ár hefur niðurskurður verið á framfærslulánum og ferðalánum frá LÍN en auk þess hefur frítekjumarkið verið skert. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að leiðrétta skerðingu síðustu þriggja skólaára þannig að framfærslulán til námsmanna erlendis verði aukin á þessu skólaári, 2016-2017, til samræmis við þessa skerðingu?

Viðreisn hefur ekki tekið saman lista af skilyrðum fyrir ríkisstjórnarsamstarfi en leggur áherslu á að málefni ráði för við stjórnarmyndun. Mikilvægt er að námslán taki mið af raunverulegum framfærslukostnaði til að tryggja jafnan aðgang að námi, sem er stefna Viðreisnar.

 

  1. Er það vilji ykkar að námslán til námsmanna erlendis verði takmarkað eftir námslöndum og námsgráðum? Ef já, með hvaða hætti?

Slíkt er ekki á stefnuskrá Viðreisnar.

 

  1. Hvaða vexti vill þinn flokkur hafa á námslánum frá LÍN?

Viðreisn er ekki með á stefnuskrá sinni tiltekna vexti á námslán frá LÍN. Stór hluti vaxtagreiðslna á námslánum er vegna verðtryggingar og vill Viðreisn lækka verðbólgu og vexti með því að festa gengi krónunnar með Myntráði.

 

  1. Er það vilji ykkar að hámarksfjárhæð verði á námsaðstoð frá LÍN? Ef já, að hvaða fjárhæð?

Slíkt er ekki á stefnuskrá Viðreisnar.

 

  1. Er það vilji ykkar að námsaðstoð verði einungis veitt upp að ákveðnum einingafjölda? Ef já, að hvaða marki?

Slíkt er ekki á stefnuskrá Viðreisnar.

 

  1. Munuð þið beita ykkur fyrir því að lántökugjöld verði afnumin af námslánum?

Ekki er tekin sérstök afstaða til lántökugjalda á námslánum í stefnuskrá Viðreisnar, en almennt leggur Viðreisn áherslu á að námslánin tryggi jafnan aðgang að námi og ber að hafa það í huga þegar lántökugjöld eru skoðuð.